Utanríkisráðuneytið opnar upplýsingavef um þróunar og mannúðarmál

Utanríkisráðuneytið hefur opnað á vef Stjórnarráðsins sérstaka upplýsingaveitu um þróunar- og mannúðarmál. Vefurinn nefnist Heimsljós og leysir af hólmi samnefnt veftímarit sem komið hefur út vikulega um tíu ára skeið.
Í tilkynningu segir að Heimsljósi sé ætlað að viðhalda og glæða umræðu um málaflokkinn sem er ein meginstoð íslenskrar utanríkisstefnu. Jöfnum höndum verður fjallað um strauma og stefnur í málaflokknum á heimsvísu en sérstök áhersla er lögð á frásagnir sem tengjast opinberri þróunarsamvinnu Íslands og starfi íslenskra borgarasamtaka á þessu sviði.
Auk frétta af þróunar- og mannúðarmálum munu birtast á vefnum pistlar eftir íslenska sérfræðinga sem starfa á vettvangi, í ráðuneytinu eða hjá alþjóðastofnunum. Þá verða birtar hlekkir á áhugaverðar greinar um málaflokkinn, einnig krækjur á fréttir og fréttaskýringar og tilvísanir í fræðigreinar og skýrslur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila