Varað við aukinni svifryksmengun

Í dag og næstu daga er hætta á að svifryksmengun fari talsvert langt yfir viðmiðunarmörkum vegna veðurfarslegra aðstæðna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Í tilkynningunni kemur fram að klukkan 14:00 í gær hafi klukkutímagildi svifryks við Grensásveg mælst 119,0 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöð við Njörvasund/Sæbraut var klukkutímagildið á sama tíma 106,4 míkrógrömm á rúmmetra og í mælistöð við Egilshöll 33,4 míkrógrömm á rúmmetra. Í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum var svifryksgildi 13,1 míkrógrömm á rúmmetra. Þá er almenningur hvattur til þess að draga úr notkun einkabílsins við þessar aðstæður, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist í nágrenni stórra umferðagatna.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila