Vegagerðin ítrekar mikilvægi mislægra gatnamóta við borgaryfirvöld

Vegagerðin hefur á undanförnum árum lagt áherslu á að mislæg gatnamót yrðu sett við ákveðnar stofnbrautir í borginni og meðal annars reynt að koma þeim hugmyndum að hjá borgaryfirvöldum oft við litlar undirtektir, enda hafi borgaryfirvöld verið andsnúin slíkum hugmyndum.

 

Í tilkynningu frá Vegagerðinni er bent á að að lengi hafi verið til að mynda brýn þörf á mislægum gatnamótum á mótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar og ekki sé rétt að Vegagerðin hafi ekki fylgt því máli eftir “ Vegagerðin hefur af og til á undanförnum árum farið fram á umræðu við samgöngudeild borgarinnar um gerð mislægra gatnamóta á þessum stað en fengið þau svör að slíkt væri ekki á dagskrá. Það er því ekki rétt að Vegagerðin hafi ekki fylgt þessu máli eftir, eins og fulltrúi Reykjavíkurborgar hefur haldið fram. Það er heldur ekki rétt að þessi gatnamót hafi einungis verið sett á samgönguáætlun í mýflugumynd. Þau voru nú síðast sett í heild á samgönguáætlun 2015-2026 sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Undirbúningur að gerð mislægra gatnamóta á þeim stað var vel á veg kominn árið 2006 í samvinnu embættis borgarverkfræðings og Vegagerðarinnar. Tvær megintillögur voru lagðar fyrir borgarráð þar sem önnur tillagan gerði ráð fyrir undirgöngum undir Reykjanesbraut, en hin tillagan gerði ráð fyrir brú yfir Reykjanesbraut. Borgarráð hafnaði báðum tillögunum og óskaði eftir lagfæringum á gatnamótunum í plani. Undirgangatillagan gerði ráð fyrir örlitlum breytingum á vestasta farvegi Elliðaánna, en brúartillagan gerði ekki ráð fyrir neinu raski á farveginum. Við undirbúning aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, komu fram tillögur um að hætt yrði við mislæg gatnamót á þessum stað. Vegagerðin gat, m.a. með tilvísun þágildandi í svæðisskipulag, mótmælt þeim hugmyndum, sem varð til þess að möguleikanum er haldið opnum og vísað til endurskoðunar svæðisskipulags.“segir enn fremur í tilkynningunni.

Athugasemdir

athugasemdir