Velferðarvaktin lætur framkvæma rannsókn á lífskjörum og fátækt barna

Velferðarvaktin hefur falið EDDU öndvegissetri að gera rannsókn á lífskjörum og fátækt barna á Íslandi.
Í rannsókninni verður meðal annars horft til þróunar lífskjara og lífsgæða barna yfir tímabilið 2004-2015 með megináherslu á þrjú tímabil, þ.e. uppgangstímabilið frá 2005-2007, árin um og eftir hrun, frá 2008 til 2011 og endurreisnartímann frá 2012-2015. Staða íslenskra barna verður borin saman við stöðu annarra þjóðfélagshópa og stöðu barna í öðrum Evrópulöndum en einnig verður munurinn á milli ólíkra hópa barna greindur og helstu áhrifaþættir á lífskjör barna metnir. Niðurstöður verða settar í samhengi við helstu þjóðfélagsbreytingar sem urðu á tímabilinu og breytingar sem gerðar voru á opinberri stefnumótun og varða lífskjör barna.
Gert er ráð fyrir að niðurstöður rannsóknarinnar verði birtar í skýrslu þar sem dregin verður upp heildstæð mynd af lífskjörum barna á Íslandi og þau sett í evrópskt samhengi. Skýrslan mun innihalda nýjar mælingar upp úr lífskjararannsókninni sem ekki hafa birst áður á Íslandi. Einnig verður þar bent á hvaða upplýsingar skortir til að bæta reglubundna gagnasöfnun sem varpar ljósi á lífskjör barna. Áætlað er að skýrslan verði gefin út í ágúst 2018 og verður gerð hennar í höndum Kolbeins Stefánssonar, félagsfræðings.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila