Vestnorræna ráðið fær áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu

Utanríkisráðherrar aðildarríkja Norðurheimskautsráðsins samþykktu á fundi sínum í Fairbanks í Kanada í vikunni að veita Vestnorræna ráðinu áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Vestnorræna ráðið er samstarfsráð Færeyja, Grænlands og Íslands. Af yfir tuttugu umsækjendum um áheyrnaraðild hlutu einungis sjö brautargengi en auk Vestnorræna ráðsins eru m.a. Alþjóðahafrannsóknaráðið þjóðþinga, Alþjóðaveðurfræðistofnunin, Sviss og
National Geographic Society nýir áheyrnaraðilar að Norðurskautsráðinu.

Vestnorræna ráðið hefur aukið umsvif sín í málefnum norðurslóða töluvert síðustu ár samfara auknu alþjóðlegu vægi svæðisins. Þróunin á norðurslóðum er sérstaklega mikilvæg fyrir vestnorrænu löndin þrjú en 20% af landmassa norðurslóða tilheyra Vestur-Norðurlöndum og íbúar landanna eru um 10% af
heildaríbúafjölda norðurslóða. Líklegt er að alþjóðleg þróun næstu áratugina, m.a. þegar kemur að hækkandi meðalaldri þjóða, þéttbýlismyndun, auðlindaskorti, vaxandi kaupmætti og loftlagsbreytingum, komi til með að
hafa mikil áhrif á Vestur-Norðurlönd, ekki síst hvað varðar alþjóðlega stöðu þeirra. Í ljósi þessa hefur Vestnorræna ráðið kallað eftir auknu vestnorrænu samstarfi um málefni norðurslóða, nú þegar norðurslóðaríki eru í auknum mæli að auka samstarf sín á milli til að vernda og styðja hagsmuni sína. Ráðið hefur jafnframt stóraukið þátttöku sína í alþjóðlegum viðburðum um málefni norðurslóða, ekki síst á vettvangi Hringborðs norðurslóða (e. Arctic Circle) sem ráðið gerði sérstakan samstarfssamning við í upphafi ársins 2016.

Á alþjóðlegum vettvangi hefur Vestnorræna ráðið ekki einungis lagt áherslu á vestnorræn málefni heldur einnig skyldu þjóðkjörinna fulltrúa norðurslóðaríkja til að vernda réttindi íbúa svæðisins og mikilvægi þess að
draga úr ríkjandi lýðræðishalla þegar kemur að málefnum norðurslóða. Áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu er því liður í viðleitni til að styrkja samstarf landanna um málefni norðurslóða enn frekar, treysta stöðu Vestnorræna ráðsins í alþjóðlegu samstarfi um málefni svæðisins og draga úr ríkjandi lýðræðishalla á svæðinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila