Vilja takmarka skaða og hámarka ávinning af netinu fyrir öll börn

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hvetur til þess í árlegri stöðuskýrslu sinni um börn í heiminum – State of the World Children – að stafræni heimurinn verði gerður öruggari fyrir börn en einnig að aukið verði aðgengi að Netinu í þágu barna sem eiga hvað erfiðast í veröldinni.
Þrátt fyrir að börn séu mikið á Netinu – einn af hverjum þremur netnotendum er barn – er of lítið gert til þess að vernda þau gegn hættum í stafræna heiminum og jafnframt er of lítið gert til að auka aðgengi þeirra að öruggu efni á Netinu,“ segir í skýrslu UNICEF, Börn í stafrænum heimi
Í skýrslunni eru bæði skilgreindar hætturnar sem af tækninni stafar og ný tækifæri sem opnast. Að mati samtakanna hafa hvorki ríkisstjórnir né einkafyrirtæki náð að fylgja þróuninni eftir og því telur UNICEF að börn séu útsett fyrir nýjum hættum og skaða auk þess sem milljónir barna sem standa höllum fæti séu utangarðs í stafrænum heimi.
Hvort sem okkur líkar betur eða verr er starfræn tækni óumdeilanleg staðreynd í lífi okkar,“ segir Antony Lake framkvæmdastjóri UNICEF í frétt frá samtökunum. Hann bætir við að í stafrænum heimi felist tvíþætt áskorun, annars vegar hvernig lágmarka megi skaða og hins vegar hvernig unnt sé að hámarka ávinninginn af Netinu í þágu allra barna.
Í skýrslunni er fjallað um kosti stafrænnar tækni fyrir börn sem standa höllum fæti, þar á meðal þau sem vaxa upp í fátækt eða búa á hörmungasvæðum. Bent er á að auka þurfi aðgengi þessara barna að upplýsingum, byggja upp hæfileika þeirra fyrir framtíðina á vinnustað sem nýtir sér stafræna tækni og gefa þeim vettvang til að tengjast öðrum og miðla skoðunum sínum.
Fram kemur í skýrslunni að milljónir barna standi utan við stafræna heiminn. Um það bil þriðjungur ungmenna í heiminum eða um 346 milljónir sé ekki á Netinu. Það feli í sér aukinn ójöfnuð og dragi úr getu barna til að vera þátttakendur í hagkerfi sem byggir í auknum mæli á stafrænni tækni.
Þá er í skýrslunni einnig fjallað um það hvernig Netið eykur varnarleysi barna gegn hættum og skaða, þar með talið misnotkun á persónuupplýsingum, aðgengi að skaðlegu efni og Neteinelti. Stöðug nálægð við nettengd tæki hefur að mati skýrsluhöfunda aukið eftirlitsleysi með netnotkun margra barna og þar með gert þau berskjaldaðri fyrir hugsanlegum hættum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila