Vinna að nýrri menntastefnu

Vinna er hafin við að móta nýja menntastefnu Íslands til ársins 2030. Með nýju menntastefnunni er áætlað að setja í forgang þær áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í mennta- og velferðarmálum og hafa heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til hliðsjónar.
Lilja Alfreðsdóttir mennta og menningarmálaráðherra segir mikilvægt að hafa gæðin að leiðarljósi við gerð nýrrar menntastefnu „Leiðarljós okkar verður gæðamenntun fyrir alla, á öllum skólastigum ,við viljum fá sem flesta að borðinu og vinna þessa stefnumótun í breiðu og góðu samráði. Það eru mikil sóknarfæri í íslensku menntakerfi, á mörgu góðu að byggja en nú er verkefnið að stilla saman strengi um stefnuna til framtíðar því lífsgæði okkar þá hvíla á ákvörðunum dagsins í dag.
Eitt af markmiðum nýrrar menntastefnu verður meðal annars að tryggja að allir í skólasamfélaginu líti á skólastarf án aðgreiningar sem grundvöll gæðamenntunar fyrir alla nemendur í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Fram kemur í tilkynningu að sú stefna, sem sé kennd við menntun fyrir alla, hafi verið í endurmati og þróun síðastliðin ár og nú sé starfandi stýrihópur, á breiðum samstarfsgrundvelli, sem muni leiða þá vinnu áfram. Að henni koma mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, ráðuneyti félags- og jafnréttismála og heilbrigðismála, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Skólameistarafélag Íslands, samtökin Heimili og skóli og Háskóli Íslands fyrir hönd kennaramenntastofnana.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila