Vinna að úrbótum á réttindum og eftirliti með aðbúnaði fatlaðs fólks

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur skrifað undir sex reglugerðir sem allar snúa að því að bæta þjónustu við fatlaða og tryggja aukið eftirlit með aðbúnaði á heimilum og stofnunum sem þjóna fötluðum.
Í tilkynningu segir að markmið ráðuneytisins sé að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu hverju sinni. Fatlað fólk skuli þannig fá nauðsynlegan stuðning til að njóta fullra mannréttinda til jafns við aðra og sjálfstæðs lífs á eigin forsendum.
Þá segir í tilkynningunni að setning reglugerðanna sé viðbragð við könnunum og fréttum undanfarinna ára þar sem alvarlegar brotalamir hafa komið í ljós varðandi aðbúnað fatlaðs fólks. Unnið hefur verið að reglugerðunum í ráðuneytinu um nokkra hríð og haft samráð við fjölda hagsmunaaðila sem áttu fulltrúa í nokkrum af þeim starfshópum sem skipaðir voru til að taka þátt í vinnunni. Alls tóku 46 utanaðkomandi fulltrúar frá ýmsum samtökum þátt í störfum hópanna, þar á meðal frá Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, NPA-miðstöðinni og Átaki, félagi fólks með þroskahömlun.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila