Vinnu við Dýrafjarðargöng miðar vel áfram

Vinnu við gerð Dýrafjarðarganga miðar vel áfram og eru nú göngin alls orðin rétt tæplega 1200 metrar að lengd, eða um 21% af heildarlengd ganganna. Í síðustu viku gekk gröftur þó umtalsvert betur en venja er en þá náðu gangnagerðarmenn að grafa sig áfram um heila 67 metra á einni viku. Eins og kunnugt er getur þó ýmislegt komið upp á við gangnagerð eins og dæmi úr Vaðlaheiðargöngum sanna, en við vinnu í göngunum í síðustu viku kom í ljós allstór berggangur eða um níu metrar á breidd. Þá hafa gangnagerðarmenn orðið varir við að talsvert magn af vatni rennur um göngin en þó er magnið aðeins brot af því magni vatns sem streymdi um Vaðlaheiðargöng um árið. Vatnið tefur ekki framkvæmdir enn sem komið er en gert er ráð fyrir að undirbúningur við vegavinnu við gangnamunnan muni hefjast innan tíðar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila