Vinnu við Dýrafjarðargöng miðar vel áfram

Frá Dýrafirði.

Vel gengur að grafa fyrir Dýrafjarðargöngum en nú þegar eru göngin orðin á annað hundrað metra að lengd. Grafið er rétt um 60 metra í viku hverri og efni sem til fellur jafnharðan ekið í sérstaka safnhauga þar sem efnið er flokkað og meðal annars nýtt til vegfyllingar. Þá er búið að koma upp loftræstibúnaði inni í göngunum sem er nauðsynlegur þegar búið er að grafa ákveðna lengd, enda sé mikil umferð vinnuvéla um göngin með tilheyrandi útblástursmengun. Gert er ráð fyrir að vinnsluhraði graftrarins aukist jafnt og þétt næstu vikurnar en það er þó háð því hvort vandamál komi upp en eins og frægt er orðið lentu menn í talsverðum vandræðum í Vaðlaheiðargöngum um árið þegar grafið var niður á heitavatnsæð. Gert er ráð fyrir að göngin verði fullbúin árið 2020 gangi áætlanir eftir.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila