Á annað hundrað viðburða á Vetrarhátíð

Vetrarhátíð verður haldin dagana 2.–4. febrúar og fer hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Í tilkynningu segir að þessi hátíð ljóss og myrkurs samanstandi af þrem meginstoðum: Safnanótt, Sundlauganótt og ljósalist ásamt yfir 150 viðburðum þar sem fjöldi listamanna tekur þátt í að skapa einstaka stemningu í borginni, en frítt verður á alla viðburði.

Safnanótt

Safnanótt verður haldin föstudagskvöldið 3. febrúar en þá opna fjölmörg söfn dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá frá klukkan 18:00 til 23:00. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið Safnanætur fram eftir kvöldi sér að kostnaðarlausu.

Sundlauganótt

Sundlauganótt verður haldin laugardagskvöldið 4. febrúar en þá verður frítt í sund kl. 17:00–22.00 í tólf sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu. Uppákomur í laugunum verða af margvíslegum toga og munu gestir fá að upplifa einstaka og óvenjulega kvöldstund í mögnuðu myrkri. Ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi, þar sem gestir eru hvattir til að taka þátt með því að slaka á og njóta stundarinnar.

Ljósaslóð

Ljósaslóð Vetrarhátíðar verður í lykilhlutverki en það er gönguleið frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíg og niður á Austurvöll sem er vörðuð með ljóslistaverkum. Þessi ljóslistaverk munu lýsa upp miðbæinn kl. 18:30–22:30 alla daga Vetrarhátíðar. Þannig mun gestir geta upplifað listaverk utandyra með sínum nánustu á sínum eigin hraða.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila