Á meðan fólkið kýs ekki eins og það segist vilja hafa hlutina þá mun lítið breytast

Hinn góðkunni stjórnmálamaður Sighvatur Björgvinsson var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í þættinum Síðdegisútvarpið miðvikudaginn 5. apríl. Sighvatur vakti nýlega mikla athygli með grein í Morgunblaðinu 25. mars undir fyrirsögninni „Útlæg þjóð í eigin landi.“ Þar gagnrýndi Sighvatur hið mikla átak að gera íslenskuna gagnkunnuga á vettvangi gervigreindar svo landsmenn gætu talað við tölvurnar sínar og farsíma á tungu sinni en lítið gert til að fólkið sem býr í landinu geti talað saman á íslensku hvert við annað.

Þegar gengið er niður Laugaveginn í Reykjavík, sem hann og eiginkonan gerðu, sést að íslensk tunga er á hrakhólum fyrir ferðamannaensku og nútíma gervigreindarensku. Varla er hægt að finna neinn sem talar íslensku á þessum sjálfum meginfarvegi íslenskrar menningar lengur. Sérlega og sorglega fyndnar voru lýsingar Sighvatar af Austurstræti en hann nefndi heiti helstu athvarfa höfuðborgarbúa t.d. „LUX Nightclub,“ „Dirty burger and ribs,“ „Jungle coctail bar“, „Drunk rabbit“ og „Shalimar restaurant.“ Ekki er hægt lengur að taka strætó í höfuðborginni án þess að geta spurt bílstjórann til vegar á ensku og þegar hringurinn er ekinn um landið til að fræðast um merkilega staði, sem kærir eru þjóðinni, kunna margir umsjónaraðilar hvorki íslenska tungu né þekkja til sögulegra atburða eða menningu staðarins. Hápunktur ferða hjónanna var svo í heimsókn til Patreksfjarða, bæjar ættfólks með bernskuminningum en þar var hótelverð eins og á betra hóteli í New York og skylt að greiða fyrir gistinguna í evrum, íslenska krónan var ekki gjaldgeng!

Ekki hægt að kenna Úkraínustríðinu um verðbólguna

Margt bar á góma í viðtalinu við Sighvat Björgvinsson sem líst illa á, að ríkissjóður sé rekinn ár eftir ár með fjárlagahalla:

„Það er ekki hægt að kenna Úkraínustríðinu um verðbólguna á Íslandi, þjóðin hefur mun meiri gjaldeyristekjur núna en fyrir 2-3 árum síðan. Það er umhugsunarefni, að þá skuli vanta enn frekari gjaldeyri og að skera verði niður framkvæmdir og þjónustu fyrir almenning en ekki rætt um að auðugustu aðilar á Íslandi eru nánast undanþegnir sköttum.“

Sighvatur ber saman ójöfnuðinn t.d. að ekki er hægt að kaupa íbúðarlóð í Reykjavík án þess að hún sé seld hæstbjóðanda á opinberu uppboði en auðlindir þjóðarinnar má nýta án auðlindagjalds.

„Hvernig stendur á því, að bankarnir sem sjaldan hafa verið jafn arðbærir og núna, þurfa ekki að greiða bankaskatt? Fátækt fólk með innan við 400 þúsund krónur á mánuði er að borga skatta en þeir sem fá milljarða í arðgreiðslur greiða lítinn sem engan skatt.“

Ekki útlendingum að kenna hversu illa er haldið á innflytjendamálum

Sighvatur sagði það furðulegt, að íslenskan er ekki lengur gjaldgeng sem tungumál á mörgum stöðum á landinu og segir það vandamál Íslendinga, hversu illa er haldið á spilum gagnvart því fólki sem hingað flyst til að setjast að og gerast fullgildir landsmenn:

„Það er ekki útlendingum að kenna, sem hingað koma til starfa, heldur hvernig Íslendingar hafa haldið á málunum. Við verðum að aðstoða þetta fólk til að taka þátt í samfélaginu og þá er íslenskan það mál sem gildir. Það er ekki nóg að taka á móti öllum sem vilja koma hingað, við verðum líka að búa þannig um málin að viðkomandi geti komist að sem fullgildir aðilar í samfélaginu. Það vantar skýrar, samræmdar reglur um hvernig á að taka á móti þeim, sem hingað vilja koma, við eigum ekki að taka á móti fleirum en við getum sinnt.“

„Svo eru að koma 2,4 milljónir ferðamanna til landsins. Hvað haldið þið að það þýði í auknu álagi til dæmis á heilbrigðisþjónustuna?“

Ljótu ummælin fara eftir því hver segir þau

Fleiri mál báru á góma eins og hatursumræðan, orkumálin og svo að sjálfsögðu stjórnmálaástandið. Um hatursumræðuna sagði Sighvatur:

„Ljótu ummælin fara eftir því hver segir þau. Til dæmis yrði Arnþrúði Karlsdóttur frekar trúað, ef hún segði eitthvað ljótt um mig en ef ég segði eitthvað ljótt um hana. Vegna þess að hún er kona… Dómstólarnir eru í ríkari mæli farnir að túlka almenningsálit en að fylgja lögunum. Sú réttarfarsregla að maður sé saklaus þar til sekt er sönnuð virðist varla gilda lengur.“

„Fjölmiðlalandslagið er gjörbreytt frá því er áður var og ríkið þarf að taka á því að verið er að auglýsa í erlendum fjölmiðlum á íslenskum auglýsingamarkaði. Unga kynslóðin hefur samskipti á ensku og það ætti að gera meðborgurunum kleift að tala og skilja íslensku í stað gervigreindarinnar. Hvað verður svo um þessa 100 blaðamenn sem hætta núna vegna lokunar Hringbrautar og Fréttablaðsins?“

Óskiljanlegt að heimildir EES-samningsins séu ekki notaðar

Sighvatur Björgvinsson er gagnrýninn á, að heimildir EES-samningsins um afstöðu Íslendinga til að hafa áhrif á gang mála skuli ekki vera nýttar í samskiptum við ESB.

„Margt af vandamálum okkar eru heimagerð, sjáum bara kolefnisgjöld á flugið. Malta og Kýpur sömdu um undanþágu fyrir sig og það hefðu Íslendingar líka getað gert en gerðu ekki. Sama er upp á teningnum með raforkuna. Við höfum þessar heimildir en notuðum þær ekki af ástæðum sem eru ofar skilningi mínum. Þjóðin þarf að átta sig á því, að auðugir Norðmenn eru ekki að fara að byggja vindmyllugarða á Íslandi til að selja rafmagn á ódýru verði innanlands, heldur á að leggja rafstreng og selja orkuna á margföldu verði erlendis.“

Verið að endurreisa kratismann

Sighvatur Björgvinsson hefur langa reynslu af íslenskum stjórnmálum. Samkvæmt Wikipedíu var hann fjármálaráðherra 1979-1980, heilbrigðis- og tryggingaráðherra 1991-1993, viðskipta- og iðnaðarráðherra frá 1993 -1999. Hann er jafnaðarmaður af lífi og sál og stjórnmálabaráttan honum kær:

„Það tókst aldrei á Íslandi eins og á hinum Norðurlöndum, að jafnaðarstefnan yrði leiðandi forystuafl. Það var fyrst þegar að kommúnisminn hrundi sem tókst að mynda fyrstu vinstri ríkisstjórnina á Íslandi. En formaður Samfylkingarinnar fór í ríkisstjórn með íhaldinu og þá hrundi fylgið. Núna fær Samfylkingin allt að 25% fylgi í skoðanakönnunum, er orðin stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Það þarf að víkja Sjálfstæðisflokknum úr ríkisstjórn. Ég vona að það gangi vel hjá Samfylkingunni og óska þeim alls góðs í sínum málum.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila