Aukinn vopnaburður unglinga lýsir í raun þeim grundvallarbreytingum, sem hafa orðið á íslensku samfélagi í tíð núverandi ríkisstjórnar. Meginábyrgðin liggur hjá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins sem lengst hafa farið með þann málaflokk sem snýr að löggæslu- og dómsmálum og málefnum útlendinga. Hvatinn hefur komið frá samstarfsflokkunum.
Hingað til lands hafa streymt óáreittir ýmiss konar glæpahópar, hryðjuverkamenn og aðrir misyndismenn. Erlendar glæpaklíkur hafa hreiðrað um sig hér á landi með góðum árangri varðandi eiturlyfjadreifingu og sölu, innbrotum, þjófnaði, eignarskemmdum, ofbeldi, oftar en ekki kynbundnu, og ónæði fyrir hinn almenna borgara. Ungt fólk getur ekki lengur treyst því að fá að ganga óáreitt um bæjarfélög sín á kvöldin og á næturlagi og konur verða fyrir stöðugu áreiti og ofbeldi af hendi útlendinga, jafnvel leigubílstjóra!
Hvers vegna bera íslenskir unglingar nú vopn? Skýringin er sáraeinföld. Fjölgun erlendra glæpahópa og stóraukið ofbeldi í tengslum við þá veldur því að unglingunum þykir sem þeir þurfi að vopnavæðast til að geta varið sig. Innfluttir hryðjuverkamenn eru jafnvel farnir að ráðast á unglingana í skólunum! Enginn er óhultur. Þetta er innfluttur vítahringur í boði fjölmenningarsinna og glóbalista.
Að venju er byrjað á öfugum enda: „Það þarf að breyta unglingunum okkar, það þarf að breyta þeirra viðhorfi“ er sú mantra sem þulin er í sífellu. Lausnin felst ekki í því að breyta íslenskum unglingum. Það er ekkert að þeim. Lausnin felst í því að uppræta erlenda / og innlenda glæpahópa og vísa skilyrðislaust öllum innfluttum glæpamönnum tafarlaust úr landi sem unnt er skv. íslenskum lögum. Við erum að missa tökin. Íslenskir unglingar þurfa fyrst og fremst aukið öryggi í samfélaginu. Það dugar ekki að taka af þeim hnífana og hnúajárnin. Það dregur ekki úr ótta og óöryggi. Nú þarf að hreinsa rækilega til!