Stefanía Jónasdóttir skrifar:
Að gefnu tilefni spyr ég: Hver á Ísland? Svarið er: Ég og þjóðin, ekki stórfyrirtæki heimsins, ekki auðmenn innlendir, ekki erlendir og ekki mammonshausar alþingis né alþingi vort. Þið hafið ekki rétt né afsal frá þjóðinni til þess að stjórna Íslandi eins og það sé ykkar einkafyrirtæki. Guðlaugur Þór, Bjarni Ben., Ásmundur, Guðmundur Ingi, Tryggvi og allir þeir embættismenn sem taka ákvarðanir um örlög Íslands: segið af ykkur, þið eruð óhæf með öllu, þið stjórnið ekki af visku með hagsmuni lands okkar í huga, hvað þá þjóðar. Spilling, stuldur og óheiðarleiki eru ykkar ær og kýr. Þið hlustið ekki á raddir þjóðarinnar.
Í sögunni, verði hún rétt skráð, sem ég efast um, verður ykkar getið sem landráðafólks. Að búast við viðbrögðum unga fólksins til góðs og betri ákvarðana er ekki raunhæft því uppeldi VG og femínista á núverandi og komandi kynslóð er að skila sér, sem getulaust skaðamenntað sem auðvelt er að stjórna og heilapvo, háskólar okkar sjá um það. Þessar kynslóðir þekkja ekki söguna, kristinfræði, lífsleikni né grunnstoðirnar sem þarf til að vera virtur maður á meðal manna. Nei, þeim tókst að ala upp grátandi fórnarlömb sem ekki má blása á og þetta sjá og vita útlendingarnir og alþjóðastofnanir heimsins sem og auðmenn.
Bill Gates hlýtur nú að fá að valsa hér um með alla sína peninga. Já, Íslendingar eru auðveld bráð og menn munu missa land sitt. Ég byrjaði að skrifa landi mínu til varnar árið 2011 og á að eiga yfir 100 greinar hjá Morgunblaðinu um hin ýmsu mál, en þar á meðal reyndi ég að vara við albönsku mafíunni. Árið 1968 bjó ég í Belgrad í Serbíu, það er þegar Rússar réðust inn í Tékkóslóvakíu. Úti um allt voru hermenn því að Tító kallaði til herinn og fór að landamærunum. Rússar skyldu ekki fara inn í Júgóslavíu. Árin mín á Balkanskaga voru undir stjórn Títós, það er til ársins 1980 en það ár lést hann. Ég upplifði það oftar en ekki að sjá Tító. Já, ég sá og heyrði margt sem breytti minni lífssýn. Það er hægt að missa land sitt á innan við sólarhring. Ekki vera of auðtrúa og hafa ber efann í stjórnmálum og ákvarðanatökum. Guðlaugur Þór, þú þóttist nú maður með mönnum þegar þú svaraðir með heimskunnar glotti: ,,Sé ekki að vindurinn sé auðlind, hvað þá með lognið.“ Þetta fannst þér gott svar, þú áttaðir þig ekki á eigin heimsku, þú átt að vita að orka og öfl lífs eru jörð, vatn og loft. Hjálpi mér að láta mér koma til hugar að þú og mammonshausar alþingis, sem árum saman hafið setið á alþingi þjóðinni til óþurftar, hafið snefil af lífsskilningi, sem er náttúran, en án hennar lifum við ekki.
Nú skal landið gert að ruslahaug, fyrirtæki heimsins vita að hér er allt leyfilegt. Ísland er varnarlaust gegn ágangi og úrgangi heimsins. Það þarf að sópa ykkur öllum burt af alþingi og sækja vinnandi grasrótina til valda. Ég bið um þjóðarflokk þar sem land og þjóð eru númer eitt. Núverandi stjórnvöld eru að láta Ísland af hendi til auðmanna og alþjóðastofnana. Á alþingi situr sumt fólk árum saman, sem syngur bara sama gagnslausa sönginn, kvenna- og kynjamál. Já, það er svo vinsælt að tala um sjálfan sig og getu sína sem kona, en munu börn ykkar erfa landið.
Ég fékk að lifa fallega Ísland, sem þá gaf duglegu fólki færi á frelsi og vinnu, þátttöku í þjóðlífinu. Hún var dugleg sú kynslóð sem byggði hér upp. En nú er tími menntuðu kjánanna hér við völd. Gangi ykkur vel með næsta hlaup og útihátíð, kaupið ykkur bara hálsklúta, það breytir víst öllu, þið kusuð ykkur jú forseta úr fjármagnsgeiranum svo að gangi ykkur vel.
Ég mótmæli harðlega vindmyllum, niðurdælingu, sölu auðlinda okkar, trjákurli í hafið, sölu á landinu okkar, vatni, sjóeldi í fjörðum þegar hægt er að hafa landeldi og sölu á hestinum okkar til útlanda, öllu dýraníði, að gróið land sé rist upp í þágu loftslagslygininnar – hvert á mófuglinn að fara? Ég mótmæli því líka að Ísland sé gert að félagsmálastofnun fyrir heiminn. Ég vildi óska að stjórnvöld áttuðu sig á því að heimurinn hefur þau að fíflum. Hvað er bara að ykkur sem stjórnið hér, er engin lifandi fruma í ykkar haus? Mammon hefur tekið völdin, það er orðið erfitt að búa á Íslandi.
Höfundur býr á Sauðárkróki.