Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra skrifar:
Mikið hefur verið fjallað um það undanfarið að drengir séu „ólæsir“ í lok grunnskólagöngu. Nú er látið eins og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, beri alla ábyrgð á þessari stöðu. Hins vegar hefur Ásmundur Einar aðeins verið menntamálaráðherra í tæp þrjú ár, og því er ljóst að vandamálið er ekki nýtilkomið. Raunar má rekja það aftur í áratugi, þar sem byrjaði að bera á ólæsi meðal drengja.
Þeir sem eldri eru muna þegar lestrarnám fór fram heima við eldhúsborðið, og oft var það „Litla gula hænan“ sem lagði grunninn að lestrarfærni okkar. Flosi Ólafsson, leikari og húmoristi, orti þessa vísu um sína menntun:
Las ég mér til menntunar
margan doðrant vænan,
en lærdómsríkust lesning var
litla gula hænan.
Það er jafn vitlaust að kenna Ásmundi Einari um lesturserfiðleika drengja eins og að þakka honum fyrir að hafa „fundið upp“ lesturinn. Þetta er bæði gamalt og nýtt vandamál. Strákar hafa oft önnur áhugamál, og margir þeirra sem taldir eru „ólæsir“ hafa síðar orðið afreksmenn í sínum byggðalögum.
Við getum nefnt fjölmarga duglega athafnamenn um allt land, sem hættu ungir í skóla en hafa engu að síður náð langt í atvinnulífinu. Hér á Selfossi eru menn sem hættu snemma í skóla, og kennarar þeirra sögðu oft að þeir ættu best heima á „sjónum“. Þeir hafa síðan sýnt af sér framsýni og dugnað sem vekur undrun hjá háskólagengnum mönnum, sem oft spyrja: „Hvar fékkstu þína menntun?“ Svarið er oftast „frá BS á Selfossi,“ eða barnaskólanum. Á Siglufirði er viðlíka svarið „frá BS“ og í Vestmannaeyjum „frá BV,“ barnaskóla Vestmannaeyja. Þessir „ólæsu“ strákar hafa síðan aflað sér þekkingar sem jafnvel háskólamenn virða þá fyrir.
Það er þó ekki hægt að afskrifa ólæsi sem vandamál, en það er vissulega grafalvarlegt mál sem reynir á kennara, foreldra og menntakerfið allt. Hins vegar er umræðan orðin allt of hörð og neikvæð. Þegar rætt er um hver beri ábyrgðina á þessu vandamáli, er svarið oftast: „Ekkí ég.“ Síðan er gripið til þess að hengja bakara fyrir smið, og lýðurinn hrópar: „Krossfestum bara blessaðan mennta- og barnamálaráðherrann.“
Menntakerfið hefur lengi átt í erfiðleikum með að mæta þörfum allra nemenda, og það er ekki nýtt að strákar séu frekar dregnir inn í iðngreinar, landbúnað eða sjómennsku, frekar en að sækjast eftir langskólanámi.
Á sama tíma hafa krakkar í dag meiri þekkingu á mörgum sviðum en fyrri kynslóðir. Þeir hafa góða tungumálakunnáttu, kunna á tækni og eru vel menntaðir á mörgum sviðum. Nýja kynslóðin hefur jafnvel verið kölluð „þumalputtakynslóðin“ vegna kunnáttu sinnar á snjalltækjum. Þrátt fyrir þetta virðist menntakerfið eiga erfitt með að skilja að dugnaðurinn finnur alltaf nýjar leiðir til sigurs.
Þeir sem áður var sagt að fara á sjóinn hafa oft spjarað sig vel í lífinu, og ólæsið sem rætt er um getur verið bein leið að nýju marki sem menntakerfið hefur enn ekki náð að skilja, líkt og í sögunni um Litlu gulu hænuna, þar sem hesturinn, svínið og kötturinn vildu ekki hjálpa til við verkefnið.