Íris Erlingsdóttir skrifar:
Erfitt er að meta hvort er meira hneyksli – að Alþingi Íslendinga hefur, án nokkurrar þjóðfélagsumræðu, stofnað nýtt, óþarfa ríkisbákn, Mannréttindastofnun Íslands (MRSÍ), “með víðtækar heimildir” sem mun árlega kosta skattgreiðendur á þriðja hundrað milljónir króna, eða að ríkisbáknið, sem hefur með höndum það hlutverk að annast umrædda þjóðfélagsumræðu og er þjóðinni álíka gagnlegt og gatasigti er drukknandi manni í ólgusjó, gerði aðeins tvær fréttir um þessa fyrirhuguðu stofnun.
Fyrri “fréttin” (viðtal við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra), var birt í janúar, 2023, rúmum mánuði eftir að frestur – sem var 18 dagar – fyrir almenning til að senda umsagnir* um þessi áform Alþingis rann út. Seinni fréttin var á RÚV fyrir rúmri viku og fjallaði algjörlega gagnrýnislaust um fæðingu nýja ríkisbáknsins (í frétt RÚV um “212 þingmál á komandi vetri” 2023 er minnst á MRSÍ).
Vegna þess að landsmenn hafa yfirleitt ekki hugmynd um hvaða byrðar Alþingi er að bralla að leggja þeim á herðar, þökk sé “fjölmiðlum” þjóðarinnar, bárust þinginu aðeins níu umsagnir um málið.
Með lögum um Mannréttindastofnun Íslands er íslenska ríkið að “uppfylla skyldur sínar gagnvart Sameinuðu þjóðunum” (SÞ) undir þeim formerkjum að annast “eftirlit gagnvart mannréttindakafla stjórnarskrár Íslands [og] laga og alþjóðlegra skuldbindinga á sviði mannréttinda.”
Í landinu starfa nú þegar a.m.k. þrjár mannréttindastofnanir. Auk Mannréttindastofu Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands er Mannréttinda- og lýðræðisstofa Reykjavíkurborgar, sem hefur með höndum m.a. fötlun, “fjölmenningu og inngildingu” og kynjaréttindi. “Hinsegin” málefnaflokkur sér um að veita fyrirtækjum og stofnunum “regnbogavottun” og tilheyrandi einhyrningaprump.
Mannréttindi skiptst í jákvæð og neikvæð réttindi. Neikvæð réttindi eru í stuttu máli rétturinn til að vera látinn í friði. Þessi réttindi – fyrsta kynslóð mannréttinda – eru til nema einhver, venjulega ríkisvaldið, afneiti þeim. Jákvæður réttur felur í sér rétt til aðgerða af hálfu annarra, venjulega ríkisvaldsins.
65. gr. íslensku stjórnarskrárinnar – “Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.” – tryggir neikvæð mannréttindi, réttinn til að verða ekki fyrir aðgerðum af hálfu annarra, venjulega ríkisins í formi misnotkunar eða þvingunar.
Upp úr síðari heimsstyrjöldinni fór að bera á kröfum um svokölluð jákvæð eða annarrar kynslóðar mannréttindi. Þau tengjast jafnrétti og tryggja ólíkum hópum borgaranna jöfn kjör og meðferð. Dæmi um þetta er 2. mgr. 65 gr. Stjórnarskrárinnar, sem bætt var við árið 1995, “Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.”
Kröfur um svokölluð þriðju kynslóðar réttindi – ýmis samfélagsleg réttindi og réttindi fyrir ákveðna hópa – skutu upp kollinum á síðari hluta 20. aldar. Helsta gagnrýnin á kröfur um 2. og 3. kynslóða mannréttindi er að þau feli í sér pólitísk markmið, sem í sjálfu sér geta verið ágæt, en þýða í raun að aðrir borgarar verða að þola þvingun af hálfu ríkisins í formi uppgjafar réttinda og/eða fjármuna til að tryggja þessi nýju réttindi, sem séu í sjálfu sér forréttindi fyrir minnihlutahópa.
Aðal sölupunktur MRSÍ var að “efla réttindi fatlaðs fólks og barna” og hvaða þingmaður þorir að mótmæla slíkri réttarbót? Ef marka má umsögn
Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) er mannréttindakafli íslensku stjórnarskrárinnar einskis virði: “Samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks eigum við rétt til þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra… til að [samningurinn] öðlist alvöru merkingu fyrir líf og réttindi okkar… þarf að lögfesta hann.” Þetta sé “bara spurning um sjálfsögð réttindi” og vísar til skýringarmyndar, sem gefur til kynna að frá sjónarhóli ÖBÍ eru umrædd sjálfsögð réttindi í raun forréttindi sem aðeins “ófatlaðir” njóta.
Íslenska stjórnarskráin tryggir nú þegar öllum borgurum þessi “sjálfsögðu réttindi” (sjá gult letur á skýringarmynd). Telja ÖBÍ og Alþingi Íslendinga mannréttindaákvæði hennar ófullnægjandi?
Aðildarríki SÞ “viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu…” eins og sá réttur sé nýmæli. Samningurinn mun “tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.”
Hvað eiginlega þýðir þessi löðurmælgi? “Eðlislæg reisn”? Er reisn fatlaðra öðruvísi en annarra einstaklinga? Sjálfsímyndapólitíkin, sem krefst að komið sé fram við alla “án aðgreiningar og án greinarmunar að [sic] nokkru tagi” hefur snúist upp í andhverfu sína með ofuráherslu á mismun.
Í fljótu bragði verður ekki séð hvað þetta nýja ríkisræði með allt of “víðtækar heimildir,” en það er efni í aðra grein, mun gera fyrir 240 milljónir á ári sem MRSÍ getur ekki gert fyrir 40 milljónir, annað en að fullnægja gervikröfum frá enn einni gervistofnun SÞ.
Tilgangur stofnana og “dómstóla” alþjóðlega kolkrabbans – Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og hinna óteljandi anga þeirra – er ekki að tryggja mannréttindi og háleitar hugsjónir. Ef svo væri myndu mannréttindabatterí SÞ og Evrópuráðsins lýsa yfir neyðarástandi vegna mannréttindabrota á Íslandi og Vesturlöndum í formi skerðingar málfrelsis í stað þess að vinna leynt og ljóst gegn tjáningarfrelsi.
Þessi skrifræði eru fyrst og fremst flokkspólitískar atvinnumiðlanir fyrir ókjörna og ábyrgðarlausa sperrileggi og möppudýr með gráður í froðufræðum eins og umhverfis-hamfaraklámi og transvísindum. Þau eru byrði á skattgreiðendum og tímaskekkja sem löngu er tímabært að leggja niður.
Höfundur er fjölmiðlafræðingur
*Í einni umsögn af fjórum um svokallaða “Grænbók um mannréttindi sem leggur grunninn að landsáætlun um mannréttindi” segir Andri Eiríksson: “Það er sorglegt að sjá að göfuga hugtakið mannréttindi skuli vera túlkað af íslenskum stjórnmálamönnum á vegu sem leyfir þeim að tryggja sérhagsmuni afmarkaðra hópa mannkynsins í pólitískum tilgangi í stað þess að halda sig við að vernda réttindi óháð hvaða hópi fólk flokkast undir. Pólitísk rétthugsun og framsækin stjórnmál eru að vega að mikilfenglegasta afreki mannkynsins, meðfæddu réttindi allra sem lifa, með endurskilgreiningum og stéttabaráttu sem ætti heldur heima í riti Marx og Engel.
Þessi aðlögun mannréttinda að tíðarandanum sýnir hve skammsýn framtíðarhugsun forsætisráðuneytisins er í einu alvarlegasta málefni sem hugsast getur, réttur einstaklingsins.”