Eitthvað þótti mér ríkisstjórnin ólík sjálfri sér þegar fram kom í hennar nafni yfirlýsing frá utanríkisráðuneytinu þar sem tekið var undir með Alþjóðaglæpadómstólnum um að landtökubyggðir ísraelskra zíonista í Palestínu væru ólöglegar svo og yfirtaka þeirra á Jerúsalem. Landránið bæri að stöðva þegar í stað.
Yfirlýsingin var fullkomlega eðlileg enda í samræmi við margítrekaðar samþykktir Sameinuðu þóðanna. Hún var svo eðlileg að væri allt með felldu ætti hún ekki einu sinni að hafa vakið minnstu athygli.
En það var eitthvað sem ekki passaði. Það sem passaði ekki alveg var að þetta var ekki í samræmi við fylgispekt ríkisstjórnar Íslands við Bandaríkjastjórn sem er annarrar skoðunar í þessu efni sem kunnugt er og lítur það hornauga þegar fylgiríkin vilja uppá dekk með aðra skoðun.
Nú hefur hins vegar komið í ljós að þarna hafði eitthvað farið úrskeiðis. Það mátti öllum vera ljóst sem las Morgunblað dagsins. Leiðarahöfundur var miður sín og sagði þetta ekki frá ráðherra og þar með ríkisstjórn komið heldur valdaránsmönnum í ráðuneytinu!
En það breytir því ekki að stundarkorn var heiðri Íslands borgið.
En að það yrði svo til frambúðar var of gott til að geta verið satt.