Aðsend Grein: Orkupakkinn fyrir rafmagn og orkufyrirtækin

Kristinn Sigurjónsson skrifar:

Frjáls óháður markaður

Evrópusambandið var m. a. stofnað til að styrkja markaðskerfið um alla Evrópu til að ná sem mestri hagkvæmni. Miðstýringin, nefndarfarganið, sjóðakerfið og svo maður tali nú ekki um spillinguna, hefur eytt þessum göfugu markmiðum markaðarins.

Vesturlöndin hafa leitt velmegun allra þjóða heimsins. Meginreglan í efnahagsstjórn þeirra er markaðslögmál í efnahagsstjórn sem byggir í mjög einföldu máli á að einkafyrirtæki sjái um allt atvinnulífið. Í næstum heila öld var líka til hagkerfi sem byggðist alfarið á ríkisrekstri. Þessi kerfi lýsa öfgunum sem voru hér áður fyrr kölluð hægri stefna (kapítalismi) og vinstri stefna (kommúnismi). Í einföldu máli má segja að kapítalisminn leiði til mestrar framleiðslu en kommúnisminn til mesta jafnréttis, en þó allt í mjög einfaldaðri mynd og án allrar spillingar. Kommúnisminn leið að mestu undir lok á seinni hluta síðustu aldar vegna innri vandamála.  Nú má segja að hreinn kapítalismi hafi ekkert réttlæti, vegna þess að hann taki ekki tillit til mismunandi stöðu einstaklingsins né vörunnar sem er framleidd. Það efnahagskerfi sem nær allir á Vesturlöndum eru sammála um að sé best og sanngjarnast sé blanda af þessu hvort tveggja og kallast það blandað hagkerfi, en með mismunandi vægi á kapítalisma og kommúnisma. Þar sem framleiðsla og sala á neysluvörum er á höndum einkafyrirtækja sem notar markaðslögmálin til að ákveða verð og magn framleiddrar vöru.

Markaðslögmálin segja að eftirspurnin minnki ef verðið hækkar eins og á framboðs- og eftirspurnargrafinu hér og framboðið aukist þegar verðið hækkar.  Í skurðpunktinum er jafnvægi, kaupendur og seljendur eru „sammála um verð og magn“ Hægra megin (→) er verð svo hátt að framleiðandi nær ekki að selja allt sem kaupendur eru tilbúnir að kaupa, þ.e.a.s. umfram Framboð og vinstra megin er þetta öfugt, verðið svo lágt að það verður meiri Eftirspurn en framleiðendur eru til að bjóða til sölu.

Það eru nokkur atriði sem eru nauðsynleg til að markaðslögmál gildi.

 1. Engin takmörk eru á hráefni, þannig að alltaf er hægt að framleiða meira ef markaðurinn kallar á meira. T. d. ef það verður aukin eftirspurn eftir farsímum þá er ekkert mál að framleiða fleiri farsíma, sé nóg til af hráefni.
 2. Kaupandinn getur stjórnað magni kaupa, t.d. ef farsíminn hækkar í verði, þá endurnýjar hann bara símann 3ja eða 4ja hvert ár í stað 2. hvert ár.
 3. Ef neytandanum líkar betur vara frá öðrum framleiðanda, t. d. vegna einhverra spes eiginleika, eins og t. d. hversu notendavæn hún er, eða plássmikil, þá gæti hann auðveldlega skipt um framleiðanda eða seljanda
 4. Framleiðendur séu það margir að þeir keppist í raun sín á milli um lágt verð, en komi sér ekki saman um, hvorki hærra verð né takmarkað framboð, sem er bara verðsamráð og/eða fákeppni.
 5. Hægt er að framleiða vöruna eftir því sem hráefnismarkaðurinn er (í efni og vinnu) og geyma og svo selja eftir því sem kaupendamarkaðurinn hagar sér, eins og t.d. þegar neytendur hamstra vöru.
 6. Markaðurinn þarf að vera gegnsær svo allar upplýsingar liggi fyrir öllum.

Það er hefð fyrir því að hafa heilbrigðisþjónustu á kostnað ríkis (þótt einkaaðilar framleiði og selji hluta þjónustunnar) og sama gildir um menntun. Kemur það til vegna þess að magn þjónustu er óháð verði, fólk veikist jafnmikið óháð því hvað lækningin kostar og það getur ekki beðið með að veikjast þar til það losnar pláss á spítala eða maður kemst til læknis, né getur landlæknir gefið út ákall til þjóðarinnar um að veikjast núna því nú er svo mikið af lausum spítalaplássum. Það gengur ekki einu sinni hjá landlækni að stjórna frjósemi landans.

Er rafmagn markaðsvara ?

Rafmagn er verðmætasta form orku, henni er hægt að breyta með góðri nýtni í ljós, hreyfingu, hita og jafnvel hugviti (stjórnbúnað og gervigreind). Þess vegna er raforka miklu dýrari en önnur form á orku eins og olía eða kol.

Evrópusambandið hefur ákveðið að rafmagn sé markaðsvara og eigi því að lúta lögmálum markaðarins. En rafmagn er alls ekki markaðsvara

 1. Ef kaupandi vill stórauka rafmagnskaupin, þá gengur það ekki því ekki er víst að það sé framleitt nóg, og Íslendingar og Evrópubúar hafa upplifað rafmagnskort.
 2. Kaupandinn getur að mjög takmörkuðu leyti dregið úr kaupunum ef verðið hækkar, hann verður bara að borga meira í stað þess að kaupa minna
 3. Þótt kaupandi geti valið mismunandi framleiðanda (Orkusöluna, Orku náttúrunnar), þá er varan nákvæmlega sú sama, 230 Volt og 50Hz, óháð seljanda og svo getur hann ekki valið hvaða aðili afhendir honum vöruna, í Reykjavík verða allir að versla við Veitur og úti á landi er það oftast Rarik.
 4. Það eru mjög fáir rafmagnsframleiðendur á Íslandi og þeir hafa nánast enga möguleika á að bæta við framleiðslu sína og því mikil hætta á fákeppni á milli þeirra. Þegar framleiðandi er á höndum einkaaðila, þá hefur þeir það aðalmarkmið að hækka hlutabréfaverð og hagnað eigenda. Það hefur verið landlægur fjandi á Íslandi að eiga við verðsamráð á fákeppnismarkaði og sérstaklega þegar enginn getur aukið framleiðslu sína að nokkru leyti.
 5. Rafmagn er ekki eins og hilluvara, það er ekki hægt að geyma rafmagn til seinni tíma (rafhlöður hafa óverulega geymslurýmd). Rafmagn verður að framleiða þegar neytendur kalla eftir því og þá líka jafnmikið og þeir ætla að kaupa.
 6. Markaðslögmálin virka þar sem virðisaukinn verður í fyrirtækinu, þannig að hagkvæmni í framleiðslu og útsjónarsemi í aðföngum er mest ráðandi um lokaverð. Þessu er ekki svo farið með raforkufyrirtæki og alls ekki með vatnsaflsvirkjanir.  Þessar virkjanir eru ekki að framleiða neina orku, heldur umbreyta einu formi á orku (stöðuorku vatns, jarðhita í borholu) í aðra (rafmagn) og koma til neytenda. Sá kostnaður er óverulegur af verðmæti orkunnar. Því hefur hagkvæmni þessa milliliðs óveruleg áhrif á lokaverð. Verð íslenskrar raforku er háð hagkvæmni verktakafyrirtækjanna sem byggðu virkjanirnar og kostnaði við fjármögnun, en veðurguðirnir gefa rigninguna og kölski gefur jarðhitann, kostir markaðarins nýtast við byggingu orkuveranna en ekki við eignarhald og rekstur.
 7. Einn af eiginleikum raforkuframleiðslunnar sem aðgreinir hana frá hilluvörum markaðarins er að raforkukerfið er samtengt sem er gríðarlega mikilvægt upp á rekstraröryggið. Ef það verður bilun í orkuveri eða hverfli, þá hefur það lítil áhrif á heildina og önnur orkuver yfirtaka sjálfvirkt rafmagnsframleiðslu. Það er ekki eins öruggt með hilluvöru, enda er þá oft hægt að fara í næstu búð til að fá hana eins og þegar það var bensínþurrð í stórri sölu á norðurleiðinni, menn fara bara á næstu sölu.

Markaðsverð, þar sem ekki er markaður

Eins og hefur verið rakið hér að ofan þá eiga rök markaðsvæðingar á engan hátt við um rafmagn. Því er forvitnilegt að skoða hvernig framboðs- og eftirspurnarferlarnir líta út við þessar aðstæður sem gilda um rafmagn, þ. e. a. s. 

 1. Framleiðslan (framboð) er takmörkuð (orkuskortur)
 2. Mjög lítið er hægt að draga úr notkun (eftirspurn), því þetta er nauðsynjavara eins og vatn, matur og loft.
 3. Það er heldur ekki hægt að „hamstra“ rafmagn þegar verð er hagstætt eins og gert er í lok sláturtíðar, eða kaupa rafmagnsbíla því þeir munu seinna hækka. Það eina sem hægt er að stjórna er að nota straumfrek tæki á nóttunni, eins og að hlaða rafmagnsbíl, eða þvo, en þessi frestun er mjög takmörkuð.


Þess vegna getur frjálst verð margfaldast þótt notkunin minnki sáralítið eins og sést á grafinu.

Eins og hér hefur verið farið í gegnum, þá er rafmagn ekki markaðsvara heldur nauðsynjavara eins og heilbrigðiskerfið og löggæslan og fylgir á engan hátt lögmálum frjáls markaðar. Í markaðskerfi eru það eigendurnir sem stjórna öllu í framleiðslu- og sölueiningunni. Þótt þeir séu misjafnir, þá er afkoman og aukinn hagnaður alltaf ráðandi þáttur í stjórninni, þeirra persónulegur hagur. Það er mjög algengt hjá þessum fyrirtækjum að stjórnendur séu látnir taka pokann sinn ef arður eða verðmæti markaðarins lækkar. Yfirleitt eru það skammtímasjónarmið sem ráða á frjálsum markaði.

Er öryggið markaðsvara?

Einn stærsti þáttur rafmagns er öryggið, því það er svo margt sem er algjörlega háð því og þolir ekki minnstu hnökra í afhendingu, eins og sjúkrahús, lyftur, greiðslukerfi og umferðarljós, þetta eru allt kerfi sem þurfa truflanalausan aðgang að rafmagni. Þar sem líf liggur við eru ljósvélar sem taka við í neyðartilfellum. Það er því gríðarlega mikilvægt að stjórnendur láti öryggi en ekki hagnað ráða för við stjórnun með langtímahagsmuni í huga eins og fyrirbyggjandi viðhald og endurnýjun.

Ein helstu rökin fyrir orkupökkunum er að rafmagn fylgi markaðslögmálum og leikreglur hans eigi að gilda um rafmagn, sem er alrangt eins og ég hef fært rök fyrir.

Á vormánuðum 2019 skrifaði ég um sérstöðu raforkunnar og að hún sé ekki markaðsvara. Hún er ekki vara í hefðbundnum skilningi, að hægt sé að framleiða hana eftir aðstæðum á hráefnismarkaði og selja hana svo eftir aðstæðum á kaupendamarkaði. Greinina má lesa hér: Orkupakki 3 og sæstrengur. Allt sem þar var skrifað hefur staðist, nema að ekki er búið að leggja sæstrenginn.  Afleiðingarnar fyrir Norðmenn með sæstreng og orkupakka 3 hafa komið í ljós.  Þrátt fyrir að ráðherra hefði margsagt það á Alþingi að sæstrengur yrði ekki lagður, nema Alþingi samþykkti það, þá hefur það verið hljóm eitt, því rétturinn til að leggja hann er hluti af orkupakka 3 og er það vegna eðlis rafmagns sem er hér að ofan undir lið 5, að framleiðsla og notkun verður að haldast í hendur. Þegar jarðstrengur verður lagður, þá er Ísland komið með sitt rafmagn á evrópskt svæði.

Markaðslögmál eru rök orkupakkanna

Nú eru fréttir af orkupakka 4 á leiðinni og honum fylgt eftir með mjög miklum slagkrafti frá Evrópusambandinu.   Hvað felst í honum?  Nú er það langt og flókið mál að fara í alla afkima orkupakka 4 og aðeins á færi sérfræðinga, sem menn gerðu ekki um OP3 áður en hann var samþykktur sbr. að fullyrt var af ráðherra að samþykki Alþingis þyrfti til að leggja sæstreng, sem stóðst ekki, var bara fákunnátta eða lygi.

Það hefur þó frést að með orkupakka 4 komi aukið vald frá ACER til að stjórna hér raforkuframleiðslunni. Þeir hugsa um heildarhagsmuni Evrópu og þá vegur örríki á jaðrinum engu máli.  Í Suður-Evrópu eru að fara í hönd miklir sumarhitar og þá er mesta rafmagnsnotkunin þar.  Viðbúið er að ACER muni því ákveða að flytja sem allra mest rafmagn frá Íslandi til Suður-Evrópu og láta vatnssöfnun í uppistöðulónin til haustsins mæta afgangi, en nú er Landsvirkjun í miklum vandræðum með það og hefur ekki tekist að koma vatnsstöðunni í viðunandi horf undanfarin ár.

Annar fylgikvilli orkupakka 4 er aukinn þrýstingur á að einkavæða raforkuframleiðsluna. Ég hef lýst því hér á undan að raforkuframleiðsla er ekki markaðsvara og á ekki að vera í höndum einkaaðila sem oftar en ekki stjórnast af skammtímasjónarmiðum m. v. hagnaðarvon eigenda á hverjum tíma, meðan ríkisfyrirtæki stjórnast af langtímasjónarmiðum og rekstraröryggi. Það hafa farið margar sögur af rafmagnsöryggi í Bandaríkjunum, sem er svo stórt að samkeppnissjónarmiðin ættu að hafa mikil áhrif, en skammtímasjónarmiðin eru alltaf næst hjá eigendunum. Þess vegna má ekki undir nokkrum kringumstæðum selja Landsvirkjun.

Þeir sem eru fylgjandi orkupökkunum hafa borið því við að við séum ekki með sæstreng og munum ekki verða. Sjálfur kenndi ég raforkufræði við Háskólann í Reykjavík í tugi ára. Mitt kennslufag var framleiðsla á raforku og flutningur hennar, en sérstaklega tæknin sem nú er að ryðja sér til rúms við að flytja hana langar vegalengdir. Þannig að ég tel það bara vera tímaspurningu hvenær sæstrengur verður lagður. Nú er búið að opna raforkumarkað á Íslandi sem þýðir að þegar sæstrengurinn kemur þá getur hver sem er keypt rafmagn af honum, þótt það sé orkuskortur á Íslandi og menn geta séð hvernig verðið verður þá.  Þá mun harðna á dalnum hjá garðyrkjubændum sem framleiða allt sitt suðræna grænmeti innanlands án eiturefna og Íslendingar geta bara látið sig dreyma um að sjávareldi fari upp á land, því dælukostnaður verður mjög hár.

Kristinn Sigurjónsson
Efna- og rafmagnsverkfræðingur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila