Afnám Lýðræðis. WEF – vísir að heimsstjórn (1)

Eftirfarandi pistill Jóns Karls Stefánssonar birtist á vefsvæðinu neistar.is

Valdarán hefur átt sér stað fyrir opnum tjöldum. Ákvarðanir sem gilda fyrir alla heimsbyggðina eru í æ meira mæli teknar á samráðsfundum risafyrirtækja þar sem enginn fær að fara sem ekki hefur fengið boð. Mikilvægasti samráðsvettvangurinn fyrir þessa nýju heimsstjórn er Alþjóðaefnahagsráðið, sem starfað hefur í hálfa öld og lengi unnið því markmiði að taka völdin úr höndum þjóðríkja og færa það stórfyrirtækjunum. Áætlanir sem unnar voru fyrir mörgum árum, og jafnvel áratugum, eru nú orðnar að veruleika. Covid-19 spilar þar lykilhlutverk.

WEF – með heimsyfirráð einkageirans að markmiði

wef1

Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum – WEF) var stofnað árið 1971 af þýska viðskipta- og verkfræðingnum Klaus Schwab. Höfuðstöðvar samtakanna eru í bænum Cologny í Sviss og er skráð alþjóðlega sem frjáls félaga- (NGO) og hagsmunagæslusamtök (lobbying organization). Þetta er samráðsvettvangur um 1000 stærstu auðhringja heims, en þetta eru fyrirtæki sem oftast velta meira en fimm milljörðum Bandaríkjadala á ársgrundvelli.

Megintilgangur stofnunarinnar er samkvæmt heimasíðu WEF:

Alþjóðaefnahagsráðið (WEF) eru alþjóðleg samtök fyrir samvinnu hins opinbera og einkageirans [International Organization for Public-Private Cooperation]. Þetta er vettvangur þar sem hægt er að safna saman helstu leiðtogum á sviðum stjórnmála, viðskiptalífsins, menningar og víðar í þeim tilgangi að móta dagskrármál á heimsvísu, í hverju landi og í hverjum iðnaði.

WEF stendur á hverju ári fyrir fjölda viðburða og innan þess rúmast meira en 40 undirverkefni, en þangað kemst ekki hver sem er. Ráðstefnugestir hjá WEF eru handvaldir og einungis þeir sem hafa fengið boð til þess fá að koma á þessa viðburði.

Gestirnir eru engir aukvisar. Sæm dæmi, þá voru meðal gesta á árlegri ráðstefnu samtakanna árið 2019 Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, Antonio Guterres, Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Christine Lagarde, stjórnarformaður IMF, Ueli Maurer, forseti Sviss, Wang Qishan, varaforseti Kína, Guiseppi Conte, forsætisráðherra Ítalíu og svo mætti lengi telja. Aðalgestir voru þó úr viðskiptalífinu og hafa verður í huga að það eru stjórnendur WEF sem velja umræðuefni og stjórna umræðum.

Utan frá séð virðist þetta vera enn einn kjánalegur klúbbur ríks fólks sem finnst gaman að hittast í lúxus skíðasvæði í Ölpunum. En þetta er enginn tómstundaklúbbur. WEF hefur raunveruleg og stór markmið og stefnu, og þær ákvarðanir sem teknar eru á þessum vettvangi hafa mótandi áhrif á heimsmálin. Stefna WEF er í grunninn sú að koma á fót nýju stjórnkerfi á heimsvísu sem byggist á „samvinnu“ risafyrirtækjanna og ríkisstjórna, eða „að hafa áhrif á stefnumótun á heimsvísu og greiða fyrir framgangi samvinnu einkageirans og hins opinbera“ (promoting public-private cooperation)“. Orðið samvinna er hér haft innan gæsalappa vegna þess að með hverju ári verður það ljósara að það eru ekki ríkisstjórnir sem notast við þjónustu risafyrirtækjanna, heldur nota risafyrirtækin þjóðríkin í sína þágu. Stjórnarformaður WEF og lærifaðir, Klaus Schwab, sagði þannig í viðtali við Forbes tímaritið árið 1999 að „þjóðríkin eru orðin óþörf“ og nauðsynlegt væri að koma á „alþjóðlegu samstarfi í kringum mikilvæg málefni“. Samráðsvettvangurinn myndi auðvelda hinum ofurríku að taka stórar ákvarðanir sem myndu hafa áhrif á allan heiminn (Forbes, 1999). Þegar rýnt er í þessi markmið, þá vinnur WEF hreinlega að því að sigra allan heiminn.

Fundarefni Davos: Þannig mun framtíðin líta út

Frægustu viðburðir WEF eru Davosráðstefnurnar svokölluðu. Þær hafa verið haldnar árlega frá árinu 1988, og í annarri mynd allt frá 1971, en þá einungis fyrir Evrópu. Þar hittast stjórnarformenn risafyrirtækja, útvaldir stjórnmálamenn og álitsgjafar frá öllum heimshornum auk aðila úr stórum alþjóðastofnunum, til að skeggræða um hvaða stefnu beri að taka í málefnum sem valin hafa verið fyrir fundinn. Þema er fyrir hvern fund og í lok hverrar ráðstefnu eru samin álit og stefnur sem fundargestir heita að gera sitt til að koma í framkvæmd. Eftir hverja ráðstefnu er gefin út bók þar sem ályktanir eru dregnar saman. Með hverjum fundinum verða viðfangsefnin metnaðarfyllri og öfgafyllri, enda styrkist ár hvert sambandið á milli þeirra aðila sem þá sækja, fyrirtæki eru sífellt að verða ríkari á kostnað þjóðríkja og æ fleiri stjórnmálamenn og annað áhrifafólk vill tengjast WEF sterkari böndum, enda tryggir það pólitíska stöðu þeirra.

Þeir sem fylgdust með ráðstefnunum á Davos gátu fengið forskot á það sem koma skyldi. Á ráðstefnunum 1988 til 1993 var þannig guðspjall nýfrjálshyggjunnar allsráðandi og fagnaðaróp við fall Sovétríkjanna. Við tók áhersla á hnattvæðingu hins alþjóðlega kapítalisma og opnun markaða. Í kringum hið viðburðarríka ár 2001 var sterk áhersla á öryggismál og ríkismál.

Árið 2006 hófst nýr kafli, þar sem hver fundurinn á fætur öðrum fjallaði um það hvernig hægt væri að móta framtíðina í heimsskipan á sjálfum fundunum með sköpunargáfuna að leiðarljósi. Fundarefni Davos-ráðstefnunnar árið 2007 var þannig „Shaping the global agenda, the shifting power equation“. Á þeim fundi var áhersla lögð á að vegna óstöðugleika á heimsvísu væri nauðsynlegt að hinir voldugu fundargestir gripu sameiginlega í taumanna og byrjuðu að móta framtíðina í stað þess að bregðast við henni. Þetta átti einnig við um heim internetsins. Árið 2012 bar ráðstefnan yfirheitið „The great transformation: shaping new models“, þar sem hanna átti nýjar aðferðir í samfélagsstjórnum og iðnaði til að stjórna þeim breytingum sem búast mátti við af tækniþróun. Tveim árum síðar var þema fundarins „The reshaping of the world: consequences for society, politics and business“ og árið 2016 gaf Schwab út bókina „The fourth industrial revolution“ í kjölfar Davos-helgar sem bar sama nafn, þar sem hann veltir því fyrir sér hvernig stóru fyrirtækin gætu haldið um taumana í samfélags- og efnahagsmálum þegar gervigreind og aðrar tækninýjungar gjörbreyttu öllum sviðum mannlífsins. Ári síðar, 2017, var öll áhersla lögð á að koma í veg fyrir pólitíska sundrungu á alþjóðavettvangi; á milli línanna mátti lesa að kapp ætti að leggja á að koma Donald Trump og öðrum ólátabelgjum frá völdum.

Þjálfunarbúðir fyrir framtíðarleiðtoga heimsins

wef2
William Bretaprins og Jacinda Ardern

Yfirskrift alþjóðaráðstefnu WEF árið 1991 var „The new direction for global leadership“ og meðal ávaxta þeirrar samkomu var stofnsetning nýs undirverkefnis innan WEF sem bar heitið „the Global Leaders for Tomorrow“. Hér voru um að ræða einskonar þjálfunarbúðir fyrir unga framtíðarleiðtoga á sviði stjórnmála, viðskipta og tækni. Þessar þjálfunarbúðir breyttu um nafn árið 2016 og heita nú „Young Global Leaders“. Á heimasíðu þessa verkefnis segir:

Young Global Leaders samfélagið er stökkpallur fyrir kraftmikið og einstakt fólk með framtíðarsýn, hugrekki og áhrif til að knýja fram jákvæðar breytingar í heiminum. Í vaxandi hópi okkar eru meira en 1.400 meðlimir af 120 þjóðernum á sviðum viðskipta, frumkvöðlastarfsemi, tækni, menntunar, aðgerðarhyggju, lista, blaðamannageirans og fleira. Í samræmi við stefnu World Economic Forum leitumst við að knýja fram samvinnu hins opinbera og einkaaðila í þágu almannahagsmuna á heimsvísu. Við erum sameinuð í þeirri trú að brýn vandamál nútímans feli í sér tækifæri til að byggja upp betri framtíð þvert á geira og landamæri (úr heimasíðu Young Global Leaders, WEF, 2022).

Þetta hlýtur að teljast einstaklega vel heppnað verkefni, enda hafa frá árinu 1992 hreint ótrúlega margir framtíðarleiðtogar fengið þar þjálfun. Meðal útskriftarnema ársins 1993 voru þannig Angela Merkel, Nicholas Sarkozy, Tony Blair, Gordon Brown og Lee Hsien Loong (Webarchive, 1993). Aðrir sem útskrifast hafa úr þessum skóla eru: Paul Allen, stjórnarformaður Microsoft, Jeffrey Sachs, efnahagsráðgjafi, Jeff Bezos, stofnandi Amazon, Maria Ramos, stjórnarformaður AngloGold Ashanti og ráðgjafi fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Jose Luis Rodriguez Zapatero, fyrrverandi forsætisráðherra Spánar, Mathias Döpfner, stjórnarformaður stærsta fjölmiðlaveldis Þýskalands – Axel Springer, Larry Page, meðstofnandi Google, Greg Hunt, heilbrigðisráðherra Ástralíu og Paul Meyer, meðstofnandi og framkvæmdastjóri the Commons Project sem meðal annars sér nú um þróun og dreifingu alþjóðlegra covid-passa.

wef 3
Klaus Schwab og Justin Trudeau

Árið 2004 breytti skóli þessi um nafn og áherslu, og hét nú WEF/Young Global Leaders. Þeir sem valdir voru í þennan hóp skuldbundu sig um leið til að taka þátt í skipulagsfundum í það minnsta í fjögur ár, og töldust meðlimir af hópi sem myndi móta framtíðina. Á heimasíðu WEF fyrir Young Global Leaders verkefnið sagði „Ár hvert veljum við 200-300 einstaka einstaklinga alls staðar að úr heiminum og úr fjölda starfsgreina. Saman mynda þau öflug alþjóðasamfélag sem getur haft mikil áhrif á samfélagið“. Enn fremur segir þar, athyglisvert nokk:

oung Global Leaders munu taka þátt í „2020 Initiative“, alhliða viðleitni til að taka þátt í sameiningu við að skilgreina framtíðarsýn. Ungir alþjóðlegir leiðtogar munu síðan þróa nýstárlegar alþjóðlegar aðferðir sem munu nýtast við að taka ákvarðanir og grípa til aðgerða. 2020 frumkvæðið mun vera mjög sýnilegt fyrir almenningi og stuðla að aukinni vitundarvakningu meðal þeirra sem taka ákvarðanir um lykilatriði, og skuldbinda sig til að taka þátt í áþreifanlegum aðgerðum. Ungir alþjóðlegir leiðtogar hafa sitt eigið sjálfstæða stjórnarskipulag, en starfa í nánu sambandi við World Economic Forum (WEF- Young Global Leaders, 2005).

Þessir ungu framtíðarleiðtogar áttu sannarlega eftir að láta til sín taka og halda einmitt um stjórnvölinn í dag. Áformin fyrir 2020 initiative eru að raungerast. Meðal þeirra sem valdir voru í þennan hóp ungra leiðtoga voru:

Matteo Renzi, sem síðar varð forsætisráðherra Ítalíu, Mark Zuckerberg, stjórnarformaður og stofnandi Facebook, Sanjay Gupta, vísindaráðgjafi fyrir CNN, Nikky Haley, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna fyrir Sameinuðu þjóðirnar, Henrique Capriles, einn leiðtoga þeirrar stjórnarandstöðu Venesúela sem hefur ítrekað tekið þátt í valdaránstilraunum, Jeremy Howard, ástralskur frumkvöðull á sviði tölvuvæðingar heilbrigðisþjónustu, Jared Cohen, Stjórnarformaður Jigsaw undirverkefnis Google, Rebecca Weintraub, prófessor við Harvard og baráttumaður fyrir innleiðingu þvingaðra bólusetninga, Tulsi Gabbard, forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum, Mustapha Mokass, annar hönnuður bólusetningapassa, Emmanuel Macron, núverandi forsætisráðherra Frakklands, Sam Altman, stjórnarformaður OpenAI, Poppy Allonby, framkvæmdastjóri og yfirmaður stefnumótandi vörustjórnunar fyrir BlackRock, stærsta fjárfestingarsjóðs heims, Leana Wen, Heilbrigðisráðgjafi CNN sem berst fyrir þvingaðri lyfjagjöf og Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands.

Það að allir þessir ungu leiðtogar hafa ekki einungis tekið þátt í þessu verkefni, undirgengist að beita sér fyrir stefnu og hugmyndafræði WEF um að innleiða þá hugmyndafræði að samráðsvettvangur risafyrirtækja taki smám saman yfir stjórn heimsmálanna er áhyggjuefni. Það er einnig áhyggjuefni að þessir leiðtogar stunda virkt samráð og leika nú lykilhlutverk í stjórn heimsmálanna.

Æfingar fyrir covid og framtíðarskipulag heimsins

WEF stendur ekki einungis fyrir hinum frægu Davos-ráðstefnum, heldur ýmsum undirverkefnum sem tengjast öll meginmarkmiðinu, að greiða fyrir ákvörðunarvaldi einkafyrirtækja á alþjóðavísu. Eitt þessara undirverkefna eru æfingar þar sem viðbrögð við mjög tilteknum viðburðum eru skipulögð og æfð. Oftar en ekki eru þetta viðburðir sem ekki hafa enn átt sér stað, en WEF virðist hafa kristalkúlu falda einhvers staðar hjá sér, því æfingarnar eru gjarnan mjög tímanlegar.

Dæmi um slíka viðburði átti sér stað í októbermánuði árið 2019. Sú samráðsráðstefna og æfing bar yfirheitið „Event 201“ og var það samráð WEF, stofnunarinnar John Hopkins Center for Health Security og fjárfestingasjóðsins „Bill and Melinda Gates Foundation“. Æfingin var kynnt á vefsíðu WEF þann 15. október 2019 á eftirfarandi hátt:

Atburður 201 æfingin tengir saman leiðtoga hjá hinu opinbera og í einkageiranum til að ná fram samstarfi um undirbúning og viðbrögð við heimsfaraldri…. Æfingin tengir saman viðskiptalífið, ríkisstjórnir og sérfræðinga á sviðum öryggis og heilbrigðis til að bregðast við fræðilegum heimsfaraldri. Í henni verður einnig boðið upp á sýndarupplifun til að virkja hagsmunaaðila um allan heim og almenning til að taka þátt í innihaldsríku samtali um erfiðar ákvarðanir á efstu stigum sem þarf að taka á meðan heimsfaraldur geysar… Sérfræðingar leiða líkur að því að slíkur atburður verði að alþjóðlegri ógn – eða „atburður 201“ heimsfaraldur – sem muni koma róti á heilbrigðiskerfi og samfélagið í heild og leiða til efnahagslegs taps sem nemur um 0,7% á framleiðslu heimsins, svipað í sniðum og búast má við vegna hnattrænnar hlýnunar (Salyer, 2019)

wef 4

Atburðurinn sem æfa skyldi fyrir var útbreiðsla nýrrar stökkbreyttrar kórónaveiru. Hún myndi dreifast um allan hnöttinn og valda gríðarlegu róti á venjulegu lífi um allan heim. Til að bregðast við þessu yrðu risafyrirtækin, ekki ríki eða viðurkenndar alþjóðastofnanir, að taka forystuna og tryggja að um allan heim yrðu menn samstíga um aðgerðir sem ákveðnar yrðu af samstarfshópum svipuðum og þeim sem WEF stendur fyrir. Þetta var enginn leynifundur, heldur var hann vel auglýstur og æfingunni var streymt á Youtube. Hægt er að skoða þessa æfingu á vefsíðunni https://www.centerforhealthsecurity.org/event201/. Hægt er að sjá um 12 mínútna samantekt á fundinum hér. Þetta var mánuði áður en fréttir bárust af nýrri tegund kórónuveiru í Wuhan í Kína. Þau viðbrögð við komandi heimsfaraldri sem fundarmenn ákváðu að réttast væri að taka voru í stuttu máli þessi:

  • Viðbrögð skyldu samhæfð í samstarfi milli alþjóðlegra stórfyrirtækja í einkageiranum og alþjóðasamtaka á borð við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina.
  • Koma ætti á miðstýrðu kerfi til að fjármagna lyfjaþróun, framleiða sjúkragögn og lyf og koma þeim á rétta staði í heiminum.
  • Mikilvægt væri að það væri í höndum einkageirans, en ekki hvers ríkis, að sjá um framleiðslu lyfja, flutninga og innkaup. Einkafyrirtæki, sem myndu vinna saman, væru við stjórnvölinn og hvert ríki ætti svo að styðja við bakið á þeim; m.ö.o., ríkin áttu einfaldlega að hlýða skipunum hinna alþjóðlegu auðhringja. Alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar gætu sinnt mikilvægu samhæfingarhlutverki, en væru ekki við stjórnvölinn.
  • Vitað yrði að komið yrði á ferðatakmörkunum. Ferðamannaiðnaðurinn og ríki sem treystu mikið á hann fyrir tekjur, yrðu verst úti í faraldrinum.
  • Alveg öruggt væri að í kjölfar faraldursins kæmi upp mikil fjármálakreppa. Við henni ætti að bregðast meðal annars með því að dæla fjármunum úr hinu opinbera yfir í einkageirann.
  • Mikil áhersla var lögð á að ná stjórn á flæði upplýsinga. Bregðast ætti við af krafti við „misvísandi upplýsingum“ sem færu um internetið. Til að ná stjórn á upplýsingum ætti meðal annars að tryggja það að breytingar yrðu hjá samfélagsmiðlum þannig að ekki yrði lengur litið á þá einfaldlega sem tæknivettvang heldur fjölmiðla. Þeir yrðu að taka virkan þátt í að „senda út réttar upplýsingar“ og vinna með vísinda- og heilsugeiranum til að birta mjög mikið af „réttum“ upplýsingum og loka á „falskar“ eða misvísandi upplýsingar. Byggja ætti upp kerfi til að tryggja að réttir og traustvekjandi fjölmiðlar birtu sannleika (facts) og dreifðu honum til höfuðs fölsku upplýsingunum.

Hvort sem það var tilviljun að einmitt þessi æfing hafi farið fram mánuði áður en nákvæmlega eins faraldur skall á og lýst var í inngangi hennar eða ekki, þá er alveg ljóst að þær ákvarðanir sem voru teknar í kjölfarið voru hornsteinn viðbragðanna á heimsvísu við honum. Það hafa verið einkafyrirtækin sem hafa haldið um stjórnartaumana og nærri allar ríkisstjórnir heimsins hafa fylgt nánast nákvæmlega sömu aðferðafræði, punkt fyrir punkt. Einungis ein lausn hefur verið leyfð í umræðunni; að loka samfélögum, einangra fólk og bólusetja.

Það ætti að vekja furðu að nánast frá upphafi kom fram mjög óhefðbundin og hnattrænt samræmd „sóttvarnarstefna“ sem allir áttu að fylgja. Sú stefna sem almennt hafði ríkt í viðbrögðum við farsóttum frá því veirur voru fyrst einangraðar á fjórða áratugnum, þar sem lögð var áhersla á að vernda viðkvæma hópa, styrkja innviði heilbrigðiskerfisins, veita snemmtækar lyfjameðferðir ef þörf var á, en gæta þess að ekki kæmi of mikið rask á samfélagið, var horfin og allt tal um hana var umsvifalaust þaggað niður eða úthrópað. Svo samhæfð aðgerð sem viðbrögðin við hinum nýja heimsfaraldri er ómöguleg án samráðsvettvangs, og sá samráðsvettvangur er Alþjóðaviðskiptaráðið. Þetta hafði svo áhrif sem veikja þjóðríkin og almenning, en færa okkur nær og nær stefnu WEF um stjórn alþjóðlegra auðhringja yfir heiminum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin í samstarfi við CDC í Bandaríkjunum og Evrópsku lyfjastofnunina hafa samþættað viðbrögð á heimsvísu og ppp-samningar eins og þeir sem Trumpstjórnin gerði við lyfjafyrirtækin í marsmánuði 2020 voru gerðir sem tryggðu risafyrirtækjum í líftækni- og lyfjaiðnaðinum völd til að ákveða næstu skref jafnframt því sem óhemjumiklu fjármagni var dælt frá hinu opinbera til einkageirans. Opinber heilbrigðiskerfi um allan heim eru orðin svo veikburða og fjársvelt að það er einungis tímaspursmál hvenær einkageirinn tekur alfarið við með nýtt slagorð: Takið vöruna sem við bjóðum uppá, eða þið getið sjálfum ykkur um kennt.

Stóra endurræsingin

wef5

Þegar covid-faraldurinn var kominn á fullt skrið birtist svo næsta þema fyrir fund, og í kjölfarið bók eftir Klaus Schwab. Þetta var fimmtugasti árlegi fundur stofnunarinnar og bar hann nafnið „The Great Reset“, eins og bók Klaus Schwab gerði í kjölfarið. Hugtakið var fengið að láni frá bók bandaríska fræðimannsins Richard Florida frá árinu 2010, The Great Reset: How New Ways of Living and Working Drive Post-Crash Prosperity.

Á yfirborðinu fjallaði ráðstefnan mikið um fagra hluti á borð við grænan efnahag, loftslagsmál, kynja- og kynþáttajafnrétti og betri störf í tæknigeiranum. En undir því öllu lá stór bylting; þetta var tíminn þar sem einkageirinn, vopnaður samstarfsvettvangi á borð við WEF, tæki beina stjórn á heiminum, með aðkomu stofnana og ríkisstjórna þó. Þannig mætti ná taumhaldi á fjórðu iðnbyltingunni og móta framtíðina eftir vilja fundarmanna. Þetta yrði nýr og betri kapítalismi og covid var tækifærið til að koma þessari miklu byltingu af stað.

Covid sem tækifæri

Faraldurinn gefur okkur sjaldgæfan en þröngan tækifærisglugga til að íhuga, endurhugsa og endurræsa veröldina okkar“ (Klaus Schwab á vefsíðu WEF).

Ráðstefnan, „Great Reset“ var sett af stað af Karli Bretaprinsi í júnímánuði árið 2020 og þema fundarins var endurbygging samfélagsins og efnahagsins eftir covid-19 faraldurinn. Lausnin, sagði Klaus Schwab, var það sem hann kallaði „kapítalisma hagsmunaaðila“ („stakeholder economy“) og svo með því að ná taumhaldi á þeirri tækni sem fælist í fjórðu iðnbyltingunni. Bretaprins tók skýrt fram að það yrði einkageirinn sem leiddi framrás hins nýja og endurbætta kapítalisma. Kapítalistarnir ættu nú að taka völdin af þjóðríkjunum, en stjórna á mann- og náttúruvænan hátt auðvitað. Þannig myndu kapítalistarnir huga að langtímamarkmiðum, hætta að nota jarðefnaeldsneyti en frekar rafmagnsvélar og planta trjám (Inman, 2020).

Þetta var í raun valdarán á heimsvísu. Sú heimsstjórn sem auglýst var á fimmtugasta aðalfundi WEF var í raun einmitt þessi vettvangur sem Klaus Schwab hafði byggt upp. Hlutverk almennings var ekki tilgreint, en þegar lesið er á milli línanna þá á almenningur ekki að koma að stjórnun samfélags framtíðar, nema sem neytendur og starfsfólk. Vald þjóðríkjanna myndi smám saman hverfa niður í að sjá um framkvæmd áætlana WEF.

Viðbrögðin við covid voru ákveðin í WEF

Meðal þess sem gerði kórónukreppuna svo mikið tækifæri til stórra breytinga var bólusetningarherferðin mikla sem sett var á laggirnar með samningi Bandaríkjastjórnar og einkafyrirtækja í lyfjaiðnaðinum undir nafninu „Operation Warp Speed“. Þessi fádæmalausi samningur, sem var endurtekinn um allan heim, fól í sér að hið opinbera fjármagnaði nærri allan þróunar- og framleiðslukostnað fyrir lyfin, en lét eftir allan framtíðarágóða fyrir téð einkafyrirtæki. Til að kóróna verkið, þá samþykkti hið opinbera um allan heim að firra lyfjafyrirtækin ábyrgð, og þar með af mögulegum málaferlum og sektargreiðslum, ef ske kynni að lyfin myndu valda alvarlegum aukaverkunum í framtíðinni.

Þessi stefna um „samstarf“ hins opinbera og einka-risafyrirtækjanna var hönnuð á fundum WEF. Í grein Þórarins Hjartarsonar sem birtist þann 22. Desember 2020 er farið ítarlega í Endurræsinguna miklu (Þ. Hjartarson, 2020). Þar kemur meðal annars fram að „viku áður en WTO lýsti yfir hættuástandi (30. janúar) hélt WTO sinn árlega (þriggja daga) fund í Davos í Sviss og þar auglýsti CEPI – samstarfsverkefni Gates Foundation og WTO – gangsetningu verkefnis til þróunar bóluefnis gegn Covid. Framkvæmdastjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus, sat fundinn í Davos.“

Það sem þarf að átta sig á er það að þessi ákvörðun markaði öll seinni spor í viðbrögðum á heimsvísu við covid-faraldrinum. Þegar búið var að ákveða að sú leið sem yrði valin væri byggð á hraðri þróun bólefna (sem hingað til hefur tekið í það minnsta fjögur ár, enda krefjast rannsóknir á langtímaáhrifum í það minnsta þann tíma), þá fylgdi í kjölfarið að á meðan væri réttlætanlegt að beita hinum gríðarlega umfangsmiklu lokunum, sóttkví og eftirliti með ferðum fólks. Um aðrar leiðir skyldi ekki rætt.

Valdarán í heilbrigðiskerfum heimsins

Bóluefnin, sem fengu neyðarleyfi og skilyrt markaðsleyfi á algjörum mettíma, hafa þegar reynst lang-arðbærustu vörur lyfjafyrirtækja í sögunni og lyfja- og líftæknifyrirtæki þau sem fengu slíka samninga eru nú orðin svo auðug og valdamikil að raunveruleg hætta er á því að þau taki í raun yfir opinberri heilbrigðisþjónustu þegar fram líða stundir. Þetta er ekki einungis framtíð heilbrigðisstefnu framtíðarinnar, heldur lýsandi dæmi um hvað ppp-samningar, og endurræsingin mikla, stendur í raun fyrir. Hér hefur hið opinbera beygt sig í duftið fyrir alþjóðlegum risafyrirtækjum og fært ógrynni fjár, og ákvörðunarvalds, frá almenningi til einkageirans. Þetta er bara byrjunin, ef marka má yfirlýsingar frá WEF.

Hvers vegna covid var „tækifæri“

Bók ársins 2020 var án efa bók Klaus Schwab „Covid-19: The Great Reset“ þar sem útlistað er hvernig bregðast skyldi við faraldrinum og hvernig móta ætti framtíð heimsins (Schwab og Malleret, 2020). Í henni fullyrða höfundarnir að heimurinn verði aldrei samur eftir covid-19. Þessi faraldur er áfallsmeðferð (shock treatment) sem gerir það kleift að koma af stað áformum sem þegar voru til. Schwab gengur svo langt að tala um nýtt tímatal, fyrir og eftir covid. Þetta verður endurstilling á kapítalismanum. Í stað þess að einblína einungis á eigin viðskipti, munu einkafyrirtæki hér eftir taka virkan þátt í mótun samfélagsins, „í þágu fólksins“ auðvitað. Kórónukreppan mun kosta gríðarlega fjármuni, en það eru fjármunir hins opinbera og almennings. Þeir renna allir til risafyrirtækjanna. Eins og sagt er, við tökum öll þátt í þessu, við erum öll almannavarnir.

Heimsvaldasinnaðir stjórnmálaleiðtogar um allan heim sem kenna sig við frjálslyndi kepptust við að hrópa slagorð Endurræsingarinnar miklu. Justin Trudeau sagði á fjarfundarráðstefnu SÞ að heimsfaraldurinn „veitir tækifæri til endurstillingar – þetta er tækifæri okkar til að flýta viðleitni okkar sem við höfðum þegar áður en heimsfaraldur skall á, að endurmynda efnahagskerfi okkar“ (Wherry, 2020). John Kerry, þungavigtamaður í Demókrataflokknum, tjáði að Endurræsingin mikla myndi „gerast hraðar og af meiri krafti en fólk gerir sér grein fyrir“ og sagði Bandaríkjastjórn styðja hana að fullu (Haskins, 2020.Sjá einnig, US Department of State, 2021).

Cyber Polygon 2020

Næsta stóra æfing sem WEF tók þátt í til að bregðast við framtíðarviðburðum fór svo fram í júlímánuði árs 2020. Þessi æfing bar nafnið „Cyber polygon“ og var kynnt sem stærsta æfing allra tíma í viðbrögðum við netárásum. Þema fundarins var komandi „vef-heimsfaraldur“ (cyber pandemic): Hvernig mætti koma í veg fyrir slíkan harmleik og leggja aukinn þunga á netöryggi á öllum sviðum.

Atburðurinn sem lýst var á æfingunni var á þessa leið: Netárásir yrðu gerðar á tölvukerfi framleiðslu- og flutningskerfa. Þetta yrði til þess að framleiðsla lamaðist og flutningslínur rofnuðu. Afleiðingarnar yrðu skelfilegar. Vöru- og matvælaskortur ylli hörmungum og dauða, efnahagskerfið á heimsvísu yrði lamað. Rótleysi og öngþveiti myndi ríkja í heiminum. Önnur ógn á netinu eru svo hættulegar upplýsingar. Þær gætu komið fögrum áætlunum stórfyrirtækjanna úr jafnvægi, og ekki væri það gott.

Fulltrúar frá valdamestu, fjársterkustu og áhrifamestu fyrirtækjum komu þarna saman, ásamt fulltrúum frá stjórnmálum, tæknigeiranum og fjölmiðlum, í raun til að ræða hvernig mætti ná fullri stjórn á upplýsingum og netinu. Einkageirinn myndi koma á fót hálfgerðum herdeildum af netöryggisvörðum (WEF, 2021).

Markmiðin voru að þjálfa upp hópa til að bregðast við netárásum, tryggja „samstarf“ risafyrirtækja í einkageiranum og alþjóðastofnana (þ.e. komast að því hvernig mætti fá ríkisstjórnir til að fylgja og koma í framkvæmd fyrirmælum einkafyrirtækjanna) og skipuleggja upplýsingaherferð um mikilvægi netöryggis. Hið frjálsa internet mun eflaust heyra sögunni til, í nafni öryggis.

Munum við verða vitni að samþættaðri tölvuárás á komandi misserum sem mun lama efnahagskerfið og valda vöruskorti um allan heim? Ef svo er, þá hafa viðbrögðin við þeirri árás þegar verið samþykkt og æfð á fundum WEF. Viðbrögðin munu verða enn sterkari stjórn yfir samskiptum fólks, netnotkun og stýringu á því innihaldi sem birtist okkur. Óhlýðið fólk verður tekið fyrir og þaggað verður niður í gagnrýnisröddum. Þetta, í samhengi við valdarán auðhringjanna sem þegar hefur orðið á stað verður ekkert minna en stafrænt einræði á upplýsingum, með sannleiksráðuneyti fremst í fylkingu. Gagnrýni verður ekki liðin.

The Great Narrative

Þann ellefta og tólfta nóvember 2021 átti sér svo stað samráðsfundur risafyrirtækja, alþjóðastofnana og handvalinna áhrifavalda í Dubai. Samráðsfundurinn bar nafnið „The Great Narrative“ og var haldinn á vegum „World Economic Forum.“. Tilgangur fundarins var ekki lítið metnaðarfullur: Að móta heim framtíðarinnar. Fundarmenn áttu að koma með sínar hugmyndir og sýn, reyna að sjá fyrir sér þann heim sem þeir óskuðu sér, og svo móta áætlanir sínar. Þessi vinnufundur var beint framhald af Endurstillingunni miklu og við lok janúarmánaðar kemur svo þessi seinni hluti ritraðarinnar um það hvernig auðhringirnir hyggjast móta heim framtíðarinnar fyrir augu almennings. Á þessum fundi var horft lengra en einungis þeirrar byltingar sem kynnt var á fundinum 2020 þar sem einkageirinn tók völdin af hinu opinbera. Þetta var eins og fyrsti stjórnarfundur hinnar nýju heimsstjórnar.

Næsti aðalfundur WEF hefur svo verið auglýstur á vefsíðu samtakanna (sjá hér). Fundurinn mun bera heitið „The Davos Agenda“. Hann munu sækja Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, Kishida Fumio, forsætisráðherra Japans, António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ursula von der Leyen, forseti Evrópuráðsins, Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, Joko Widodo, forseti Indónesíu, Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels, Tedros Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, Anthony S. Fauci, sóttvarnargúru Bandaríkjanna, Kristalina Georgieva, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Ngozi Okonjo-Iweala, framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) ásamt fleirum til að stýra hvað heimsbyggðin gerir næstu árin. Almenningur kemur hvergi nærri þeirri ákvörðunartöku sem þarna mun fara fram, en það er nánast öruggt að ríkisstjórnir heims, líka hér á Íslandi, munu fylgja þeim ákvörðunum sem teknar eru, upp á bókstaf. Hinn nýji heimur, þar sem stjórnin er í höndum handvalinna einstaklinga sem skuldbinda sig til að færa alþjóðlegum stórfyrirtækjum framkvæmdavald yfir heimsbyggðinni, er orðinn að veruleika. Spurningin er hvort heimsbyggðin rísi upp til að endurheimta lýðræðið.


Heimildir

Forbes. 1999. Power broker. Forbes Magazine. Sótt þann 14.01.2022 frá https://www.forbes.com/global/1999/1115/0223108a.html?sh=30ea754c7e11

Haskins, J. 2020. John Kerry reveals Biden’s devotion to radical ‘Great Reset’ movement. The Hill. Sótt frá https://thehill.com/opinion/energy-environment/528482-john-kerry-reveals-bidens-devotion-to-radical-great-reset-movement

Inman, P. 2020. Pandemic is chance to reset global economy, says Prince Charles. The Guardian. Sótt frá https://www.theguardian.com/uk-news/2020/jun/03/pandemic-is-chance-to-reset-global-economy-says-prince-charles

Schwab, K. og Malleret, T. 2020. Covid-19: The Great Reset. Forum Publishing. Bókina í heild sinni má nálgast á vefslóðinni https://straight2point.info/wp-content/uploads/2020/08/COVID-19_-The-Great-Reset-Klaus-Schwab.pdf

United States Department of States. 2021. Remarks at World Economic Forum, Davos 2021: Remarks, John Kerry, special presidential envoy for climate. World Economic Forum, Davos 2021. Sótt frá https://www.state.gov/remarks-at-world-economic-forum-davos-2021/

Wherry, A. 2020 (27. Nóv.). The ‘Great Reset’ reads like a globalist plot with some plot holes. CBS. Sótt frá https://www.cbc.ca/news/politics/great-reset-trudeau-poilievre-otoole-pandemic-covid-1.5817973

Webarchive. 1993. WEF Class of 1993. Þessi listi var áður á heimasíðu WEF, en hefur verið fjarlægður. Netverkefnið Web Archive, sem hleður niður og geymir efni sem sett hefur verið á netið heldur utan um varðveislu netsíða sem WEF hefur fjarlægt af sínum vefslóðum.

World Economic Forum. 2021. Cyber Polygon. Sótt þann 14.01.2022 frá ( Kynningu á þessum fundi má finna hér, en ályktanir fundarins eru á þar til gerðri heimasíðu, https://2020.cyberpolygon.com)

WEF – Young Global Leaders. 2005. The Forum of Young Global Leaders. Sótt af https://web.archive.org/web/20050730001057/http://www.younggloballeaders.org/scripts/page8082.html

Young Global Leaders [undirstofnun WEF]. 2022. Who we are. The Forum of Young Global Leaders: Shaping the future. Sótt frá https://www.younggloballeaders.org/

Þórarinn Hjartarson. 2020. World Economic Forum og „Endurstillingin mikla“. Neistar. Sótt frá https://neistar.is/greinar/world-economic-forum-og-endurstillingin-mikla/

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila