Heilbrigðisráðuneytið undirbýr nú frumvarp um breytingu á lögum um sjúkraskrár. Gert er ráð fyrir að fyrirhugað frumvarp taki mið af þeirri stafrænu þróun sem verið hefur innan heilbrigðiskerfisins.
Að mati stjórnvalda er brýnt er að uppfæra lögin til samræmis og tryggja að þau styðji við innleiðingu stefnu stjórnvalda um stafrænar umbætur og endurspegli þá staðreynd að stafræn heilbrigðisþjónusta er ört vaxandi hluti almennrar heilbrigðisþjónustu. Meðal þeirra breytinga sem munu koma til álita við vinnslu frumvarpsins, er hvort gera eigi frekari kröfur til skráningar í rafrænar sjúkraskrár og um nýtingu rafrænna sjúkraskrárkerfa, hvort þörf sé á lagabreytingum til að stíga frekari skref í átt að miðlægri sjúkraskrá og hvernig tryggja eigi viðeigandi og fullnægjandi heimildir fyrir miðlun sjúkraskrárupplýsinga við veitingu samþættrar félags- og heilbrigðisþjónustu.
Í skjali þar sem metin eru möguleg áhrif lagabreytinganna kemur fram að gera megi ráð fyrir jákvæðum áhrifum á lýðheilsu, enda sé markmið frumvarpsins að leita leiða til að auka skilvirkni og framleiðni í heilbrigðisþjónustu með því að tryggja að lög um sjúkraskrár styðji við frekari innleiðingu stafrænna lausna.
Þá telja stjórnvöld að lögin hafi jákvæð áhrif á sjálfbæra þróun með frekari þróun og nýtingu stafrænna lausna, í stað pappírsbundna lausna, en þannig má jafnframt draga úr ferðalögum sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna.
Smelltu hér til þess að skoða málið nánar í samráðsgátt.