Akstur undir áhrifum fíkniefna hefur aukist

Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna fjölgaði á milli mánaða á sama tíma og tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur fækkaði. Þetta er meðal þess sem fram kemur í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir desember 2022.

Í skýrslunni segir einnig að alls hafi borist 118 tilkynningar um ofbeldisbrot í desember. Skráðar tilkynningar um heimilisofbeldi voru 67 í desember og fjölgaði því þessum tilkynningum á milli mánaða.

Í desember voru skráð 569 umferðarlagabrot (að hraðamyndavélum undanskildum). Það sem af er ári hafa verið skráð um 13 prósent færri umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu en að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár á undan. Tilkynningum um þjófnaði fækkaði töluvert á milli mánaða. Alls bárust 51 tilkynningar um innbrot í desember miðað við 85 tilkynningar í nóvember.

Skráðum fíkniefnabrotum fækkaði á milli mánaða og var eitt stórfellt fíkniefnabrot skráð í desember. Skráð voru 559 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í desember og fækkaði þessum brotum töluvert á milli mánaða.

Smella hér til að skoða skýrsluna nánar

Deila