Algerlega galið að hækka vexti um 1,25%

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Það er algerlega galið af embættismönnum Seðlabanka Íslands að hækka vexti um 1,25% þegar ljóst er að þrátt fyrir að vextir hafi verið hækkaðir 12 sinnum í röð án og samt haldi verðbólgan áfram að stíga. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Vilhjálms Birgissonar formanns Verkalýðsfélags Akraness í síðdegisútvarpinu í dag en hann var viðmælandi Péturs Gunnlaugssonar.

Vilhjálmur segir óskiljanlegt að Seðlabankinn ráðist á íslensk heimili og fyrirtæki en á sama tíma sé ljóst að verið sé að færa fjármagn frá skuldugum heimilum og fyrirtækjum yfir til fjármálakerfsins og þeirra sem eiga fjármagn í íslensku samfélagi.

Aðspurður um hvað Vilhjálmi finnist um þau ummæli seðlabankastjóra að ef hækka þyrfti vexti í tveggja stafa tölu til að ná niður verðbólgunni yrði það gert segir Vilhjálmur að hann líti á ummælin sem skefjalausar hótanir í garð launafólks. Verið sé að senda þann tón að launafólk eitt og sér beri ábyrgð á þeirri verðbólgu sem hér ríki.

„þetta er bara rangt því við getum bara byrjað á því að skoða hvað keyrði verðbólguna upp í janúar, það voru gjaldskrárhækkanir stjórnvalda og sveitarfélaga, þeir verða því bara að benda á einhvern annan en launafólk hvað þetta varðar“segir Vilhjálmur.

Hann segir að stóra málið sé hvernig verðbólga er mæld hér á landi, það sé nefnilega til nokkuð sem heiti samræmd vísitala neysluverðs sem sé innan ESB og EES landa. Sú tala er mæld nákvæmlega eins í öllum þeim löndum. Þegar sú tala er skoðuð kemur í ljós að verðbólgan hér er ekki meiri en í öðrum af þeim löndum sem Ísland ber sig saman við. Hins vegar sé einn liður í íslensku neysluvísitölunni sem er mældur með öðrum hætti en það sé svokölluð reiknuð húsaleiga og reiknuð húsaleiga er hækkun á fasteignamati fyrst og fremst.

„þegar ég skoða íslensku vísitöluna sem við notum hér á landi þá er meðaltalið frá árinu 2015 til apríl 2023 fimm prósent rétt rúm á meðan samræmda vísitalan er 2,88, allt okkar kerfi miðast við íslensku vísitöluna og það nægir í raun að taka þennan eina lið út úr vísitölunni því aðrar þjóðir eru almennt ekki að nota þann lið, ef það yrði gert værum við á sambærilegum stað og aðrar þjóðir“segir Vilhjálmur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila