Almenningur heilaþveginn með áróðri sem stýrt er af valdablokkum

Almenningur bæði erlendis og hérlendis er heilaþveginn með stríðsáróðri fjölmiðla sem stýrt er af valdablokkum í stjórnmálum. Falsfréttaframleiðsla á sér stað í Pentagon sem dreift er út um allan heim. Þetta segir Hildur Þórðardóttir þjóðfræðingur, rithöfundur og fyrrverandi forsetaframbjóðandi en hún var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu en hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Hildur bendir á að stórar fréttaveitur, eins og Reuters og Associated Press, geti verið undir áhrifum stjórnmálaafla sem stjórna upplýsingaflæði og spyr hvort almenningur fái réttar og óháðar upplýsingar.

Falsfréttaframleiðsla í Pentagon

Hildur vísar í skýrslu frá Swiss Policy Research sem bendir á að þúsundir manna starfi í Pentagon við að framleiða fréttir og upplýsingar sem ætlaðar eru til að móta almenna skoðun og stýra umræðunni í fjölmiðlum. Hún telur að slík falsfréttaframleiðsla sé stórt vandamál, sérstaklega í tengslum við stríð og átakamál. „Það er áhyggjuefni þegar fréttir eru settar saman til að hræða eða blekkja almenning,“ segir Hildur.

Hamlar því að fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir

Hún telur að þetta fyrirkomulag hafi bein áhrif á hvernig almenningur upplifir stórar alþjóðlegar deilur, eins og átökin í Úkraínu og að það hamli því að fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir.

Ný bók um hvernig falsfréttir eru notaðar til að blekkja almenning

Í nýrri bók sinni, „Barátta góðs og ills,“ fjallar Hildur einmitt um þetta málefni og um hvernig falsfréttir og stjórnmálalegar rangfærslur eru notaðar til að blekkja almenning. Hún bendir á að þetta fyrirkomulag hafi verið notað í stríðsátökum víða um heim, þar sem markmið stórvelda hafi verið að fá almenning til að styðja hernaðaraðgerðir með því að hagræða sannleikanum. Hún telur að slíkar upplýsingar hafi áhrif á almenningsálit og séu notaðar til að skapa ákveðna pólitíska samstöðu.

Mikilvægt að fjölmiðlar starfi sjálfstætt og verji almenning gegn áróðri

Hildur gagnrýnir einnig hlut fjölmiðla í að breiða út slíkar upplýsingar og bendir á að fjölmiðlar séu oft háðir stórum fréttaveitum sem sjálfar eru undir áhrifum stórra valdablokka eins og Bandaríkjanna. Hún telur mikilvægt að fjölmiðlar starfi sjálfstætt og verji almenning gegn áróðri.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila