Alþjóðleg klasaráðstefna haldin á Íslandi

Ísland hefur formlega tekið við kefli gestgjafa alþjóðlegrar klasaráðstefnu sem haldin er á vegum klasasamtakanna TCI Network með stuðningi háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Fjögur íslensk klasasamtök standa að undirbúningi og framkvæmd ráðstefnunnar; Íslenski ferðaklasinn, Orkuklasinn, Sjávarklasinn og Fjártækniklasinn. Meet in Reykjavík – Iceland, ráðstefnuhluti Íslandsstofu gegndi lykilhlutverki við að leiða tilboðsgerðina.

Klasaráðstefnan er haldin árlega og í nóvember á næsta ári verður Ísland áfangastaður ráðstefnugesta. Ráðstefnan var haldin í 25. sinn fyrr í mánuðinum, þá í Durban-borg í Suður Afríku en ráðstefnan ferðast á milli heimshluta með það að markmiði að hafa áhrif til góða á þau samfélög og atvinnulíf sem fyrir eru ásamt því að mynda alþjóðlegar tengingar og ný viðskiptasambönd. 

Í tilkynningu segir að gestgjafar séu valdir með það að leiðarljósi að þar þrífist sterkir, samkeppnishæfir klasar og rík nýsköpunarmenning. Þá segir að Ísland hafi hlotið þennan heiður þar sem landið er auðlindavin, hvort sem litið er til orku, mannauðs eða náttúru. Miðin séu gjöful og náttúruöfl sjá okkur fyrir um 99% endurnýjanlegri orku. Þá segir að hugvitsdrifinn mannauður eigi stóran þátt í því að Ísland skipi sér í fremstu röð þegar kemur að menntun, jafnrétti og skapandi lausnum sem stuðla að framúrskarandi lífsgæðum. Ísland hafi mikla sögu að segja og heimurinn fylgist með. Klasaráðstefnan beri með sér tækifæri til að bjóða aðilum frá öllum heimshornum heim og miðla þannig þekkingu og skapa ný tengsl, segir í tilkynningunni. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila