Site icon Útvarp Saga

Alvarlegur fuglaflensufaraldur í Suður Kóreu

Fuglaflensuveira af stofni H5N8 breiðist nú út með ógnarhraða í Suður Kóreu. Yfirvöld í landinu hafa bannað allan flutning á fuglakjöti í landinu til að freista þess að hefta frekari útbreiðslu veirunnar en erfiðlega hefur gengið að ráða niðurlögum hennar. Veiran sem greindist fyrst í byrjun júní getur valdið alvarlegum sýkingum í fólki en þurft hefur að slátra tugþúsundum fugla vegna veirunnar. Þá hefur veitingahúsum og sölustöðum fuglakjöts verið lokað og bifreiðar sem notaðar hafa verið til flutninga á alifuglum verið kyrrsettar. Víðtæk viðbrögð yfirvalda vegna faraldursins koma ekki á óvart því að á síðasta ári greindist sambærileg veira á nokkrum stöðum í landinu sem varð til þess að slátra þurfti milljónum fugla og verð á eggjum hækkaði gríðarlega. Ljóst er að faraldurinn mun hafa mikil áhrif á efnahagslega afkomu bænda enda er alifuglarækt ein stærsta búgreinin þar í landi.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla