Ályktun um aukna þátttöku Palestínu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna samþykkt

Ályktun um aukinn rétt Palestínu til þátttöku í störfum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna var samþykkt með yfirgnæfandi stuðningi á neyðarfundi þingsins í dag. Ísland kaus með ályktuninni.

Ályktunin felur í sér þátttökurétt Palestínu í störfum allsherjarþingsins á við aðildarrríki en hvorki atkvæðisrétt né framboðsrétt. Ályktunin var samþykkt með 143 atkvæðum gegn 9 en 25 ríki sátu hjá. Aukinn meirihluta þurfti til samþykktar.

Í atkvæðaskýringu Íslands kom fram að Ísland hafi viðurkennt fullveldi Palestínu árið 2011 og kallað ítrekað eftir tveggja ríkja lausn. Þá hafi Thor Thors, fyrsti fastafulltrúi Íslands, komið að samþykkt ályktunar allsherjarþingsins árið 1947 sem kvað á um stofnun tveggja ríkja á svæðinu. Í kjölfarið hafi Ísland stutt aðild Ísraels að Sameinuðu þjóðunum og allar götur síðan varið rétt Ísraels til sjálfsvarnar. Þá var lögð áhersla á að aldrei megi gleyma hryllingi helfararinnar sem leiddi til stofnunar Ísraelsríkis, sérstaklega núna þegar við stöndum frammi fyrir gríðarlegri aukningu gyðingahaturs. Afdráttarlaus fordæming Íslands á skelfilegri árás hryðjuverkasamtakanna Hamas þann 7. október sl. var enn fremur ítrekuð.

Þá kom fram að á undanförnum mánuðum hafi heimurinn orðið vitni að hindrunum á aðgengi fyrir mannúðaraðstoð, vatn og orku til Gaza, fregnir séu af því að borgaralegir innviðir og sjúkrahús hafi verið nýtt í tilgangi sem geti svipt þau friðhelgi samkvæmt mannúðarlögum, og algjörlega óásættanlegt mannfall hafi orðið meðal almennra borgara – barna, mannúðar- og heilbrigðisstarfsmanna, fjölmiðlafólks og starfsfólks UNRWA. Allt séu þetta brot á mannúðarlögum. Ísland fordæmi öll brot á alþjóðalögum, þ.m.t. mannúðarlögum. 

Ísland ítrekaði ákall um að Hamas og Ísrael semji um og framfylgi vopnahléi og að framfylgja verði bráðabirgðaráðstöfunum Alþjóðadómstólsins í Haag og ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur var lögð áhersla á frekari aðgerðir í þágu friðar, til þess sé tveggja ríkja lausnin eina leiðin.

Hægt er að lesa atkvæðaskýringu Íslands hér og íslenska þýðingu hér.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila