Andlát fólks sem sagt er að hafi látist úr Covid hafa aldrei verið staðfest á Íslandi

Hér á landi eru þeir sem sagðir eru hafa látist úr Covid 19 almennt ekki krufnir og hefur Meinafræðideild Landspítalans því lítið sem ekkert komið að rannsóknum á þeim andlátum sem sögð eru vegna Covid. Þetta staðfestir Pétur Guðmann Guðmannsson réttarmeinafræðingur vegna fyrirspurnar Útvarps Sögu um krufningar á Covid sjúklingum. Svar Péturs vekur athygli ekki síst í ljósi þess að hér hafa yfirvöld haldið því stöðugt fram að fjöldi manns hafi látist af völdum Covid19 frá því að faraldurinn hófst 2020. Svar réttarmeinafræðingsins gefur til kynna að þau tilfelli hafi aldrei verið staðfest með krufningu þar sem þær séu einfaldlega ekki gerðar.

Niðurstöður rannsókna WHO byggðar á röngum upplýsingum

Þegar þessar upplýsingar eru settar í samhengi við nýja frétt sem birt er á vef embættis landlæknis þar sem því er haldið fram að rannsókn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hafi leitt í ljós að frá því bóluefnin voru fyrst tekin í notkun í desember 2020 og þangað til í mars 2023 hafi þau komið í veg fyrir 542 dauðsföll, er ljóst að rannsókn WHO er byggð á röngum upplýsingum.

Í fréttinni á vef landlæknisembættisins sem sjá má með því að smella hér segir orðrétt:

„Samkvæmt rannsókn WHO, komu bóluefnin í veg fyrir 542 dauðsföll á þessu 2,5 ára tímabili á Íslandi og meirihluti þeirra hefði verið í aldurshópnum eldri en 60 ára. Bólusetningar kom því í veg fyrir 70% þeirra COVID-19 dauðsfalla sem annars hefði mátt búast við án bólusetningar hérlendis. Sóttvarnalæknir lagði til íslensk gögn til rannsóknarinnar og er meðhöfundur greinarinnar“.

Blekking í gangi

Ekki kemur fram í fréttinni hvaða íslensku gögn sóttvarnarlæknir lagði til rannsóknarinnar en ætla má að þau gögn innihaldi meðal annars upplýsingar um fjölda þeirra sem sagðir eru hafa látist úr Covid19, enda er nú staðfest að meint dauðsföll vegna Covid voru aldrei rannsökuð með krufningu til þess að skera mætti úr um raunverulega dánarorsök.

Staðfesta aðeins meint Covid andlát með PCR prófi áður en sjúklingur deyr

Í dreifibréfi sem landlæknir sendi frá sér 18.febrúar 2022 og sjá má með því að smella hér eru áhugaverðar leiðbeiningar um hvernig skilgreina beri Covid andlát en þar segir meðal annars orðrétt:

„Dauðsfall af völdum COVID-19 er skilgreint sem dauðsfall sem stafar af veikindum sem
samrýmast COVID-19, líklegt eða staðfest1 COVID-19 tilfelli, nema fyrir liggi skýr önnur
dánarorsök sem ekki er hægt að tengja við COVID-sjúkdóm (t.d. slys). Ekki ætti að vera
tímabil algjörs bata af COVID-19 á milli veikinda og dauða. Ekki ætti að vera lengra en
28 dagar frá greiningu á COVID-19.“

Það vekur sérstaka athygli að í smáu letri neðan við þennan lið stendur orðrétt:

„Staðfesting á COVID-19 sýkingu byggist á PCR-greiningu frá rannsóknarstofu eða í undantekningartilfellum á hraðgreiningarprófi.“

Þetta staðfestir sömuleiðis að engin krufning fer fram við andlát þeirra sem sagðir eru hafa látist af Covid 19 eins og Pétur Guðmann Guðmannsson réttarmeinafræðingur á Landspítalans sagði í skriflegu svari til Útvarps Sögu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila