Árið 2022 dauðlegasta árið í Svíþjóð

Sænska lögreglan hefur hvað eftir annað lýst yfir vanmætti í baráttunni gegn glæpagengjunum og hin neikvæða þróun ofbeldis í Svíþjóð styrkja orð lögreglunnar (mynd úr safni).

Núna, þegar árið er að renna sitt skeið, er orðið ljóst að árið 2022 fer til sögunnar sem blóðugasta ár Svíþjóðar í manna minnum. Samkvæmt skýrslum lögreglunnar fram að 15. desember 2022 (sjá myndir neðar á síðunni) voru 60 manns drepnir, 104 manns særðir í 374 skotárásum í Svíþjóð. Síðan þá hafa tvö lík bæst í hópinn, það nýjasta í Rinkeby um jólin sem varð númer 62 og aðrar tölur hafa einnig hækkað.

Byssubófar „nánast alltaf“ með erlendan bakgrunn

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Ulf Kristersson, sagði í áramótaræðu sinni:

„Hið banvæna byssuofbeldi er að slá hræðilegt met og er að miklu leyti algjörlega sjálfskipuð sænsk kreppa. Ekkert annað land í ESB kemst nálægt okkar Frá 1. janúar til 15. desember hafa 60 manns látið lífið og 104 særst – í 378 skotárásum í Svíþjóð. Í Danmörku hafa fjórir verið drepnir, í Noregi fjórir og í Finnlandi tveir.“

„Það sem af er þessu ári hafa jafn margir verið skotnir til bana í Södertälje og í allri London. Þetta er svo skelfileg þróun, að það er erfitt að taka þetta inn. Aðallega er það mjög ungt fólk sem er drepið og sært. Það er líka mjög ungt fólk sem drepur og særir. Nánast alltaf innan ramma skipulagðra glæpagengja. Nánast alltaf með erlendan bakgrunn.“

Fjöldi banvænna skotárása í Svíþjóð

2022: 60 (til 15. desember)
2021: 45
2020: 47
2019: 45
2018: 43
2017: 36

Sprengjutilræði fram til 15. desember 2022

Lögreglan birtir líka lista yfir sprengjutilræði fram til 15. desember 2022 og hefur bæst við síðan. Í gærkveldi sprakk sprengja í húsi í suður Stokkhólmi og leikur grunur á, að árásin hafi verið ætluð manni sem er grunaður um morðið á rapparanum Nils „Einár“ Grönberg sem Útvarp Saga hefur sagt frá.

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan hafa 183 sprengjutilræði verið gerð, þar af 85 sprengingar, 66 tilvik með undirbúningi að sprengingu og 32 tilraunir til sprenginga.

Árið 2022 er ofbeldisfyllsta árið litið langt tilbaka. Útvarp Saga mun gera grein fyrir ástandinu, á næsta ári, þegar allar tölur liggja fyrir.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila