Íslendingar ættu að gæta þess að vera ekki svo hrekklausir að halda að stór ríki og hagsmunaaðilar ásælist ekki auðlindir landsins. Það er viðbúið að Íslendingar muni standa andspænis því að það verði gerð krafa frá ESB um að einkavæða Landsvirkjun og selja hana í hlutum. Ég mun standa gegn slíkum áformum verði ég kosinn forseti Íslands. Þetta segir Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.
Arnar Þór segir að fólk verði að átta sig á að því miður séu ekkert allir góðir í heiminum og því þurfi að gæta þess að auðlindirnar lendi ekki í höndunum á öflum sem vilja ná þeim undir sig því auðlindir eru það sem okkur er trúað fyrir að koma áfram til komandi kynslóða.
Við berum ábyrgð á farsæld komandi kynslóða
Það sé einfaldlega svo að við berum ábyrgð gagnvart þeim kynslóðum sem afhentu okkur þessi verðmæti og við berum ábyrgð gagnvart þeim kynslóðum sem á eftir okkur koma og þurfa á þessum auðlindum að halda.
Ef völdin færast úr landi fer auðurinn með
Hann segir að nú standi Ísland á ákveðnum tímamótum hvað þetta varðar og þá sé ekki aðeins nauðsynlegt að þingið ræði við þjóðina um þessa hluti heldur sé það einnig hlutverk forsetans að gera það. Um þessi stærstu mál þjóðarinnar ríki vandræðaleg þögn inni á Alþingi og það neiti að horfast í augu við það valdaafsal sem er að eiga sér stað og það valdaframsal sem hefur þegar átt sér stað. Við samþykkjum lög sem eiga erlendan uppruna og það er kominn sá tímapunktur að það þarf að staldra við og meta á hvaða vegferð þjóðin er. Ef völdin færast úr landi fer auðurinn á eftir.
Hlusta má á ítarlegri umræður um málið í spilaranum hér að neðan