Ásakanir um kynferðisbrot – Fyrirtækin eiga ekki setjast í dómarasæti

Fyrirtæki eiga ekki að setjast í dómarasætið þegar upp koma ásakanir um kynferðisbrot því það er mjög mikilvægt að stigið sé varlega til jarðar þegar kemur að þessum málum. Mikilvægt er að sá sem er ásakaður fái að skýra sína hlið. Fyrirtæki eiga að vísa slíkum málum þegar í stað til lögreglunnar til rannsóknar. Þetta segir Sævar Þór Jónsson lögmaður í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu sem hlusta má á í spilaranum hér að neðan.

Ásakanir um kynferðisbrot á vinnustöðum á að vísa til lögreglunnar þegar í stað

Sævar segir að í mörgum tilfellum séu ásakanirnar ekki rannsakaðar til hlítar og jafnvel þegar enginn grundvöllur er fyrir ákæru missa einstaklingar störf sín og er ekki gefið tækifæri til að verja sig. Hann lýsir því hvernig ásakanir um kynferðisbrot koma upp á vinnustöðum og fyrirtæki grípa oft til þess að setja starfsmenn í leyfi eða reka þá strax. Þetta er gert þrátt fyrir að málið hafi ekki verið rannsakað af lögreglu eða að neitt hafi verið sannað. Afleiðingarnar fyrir þá sem verða fyrir ásökunum eru verulegar þar sem þeir missa ekki aðeins vinnuna heldur einnig mannorðið sitt. Sævar og Arnþrúður voru sammála um að í lögum væri kveðið á um að ásakanir um kynferðisbrot á vinnustað ætti þegar í stað að vísa til lögreglunnar til rannsóknar af þar til bærum aðilum.

Ásakanir sem eru ekki á rökum reistar

Sævar segir að málin taki oft langan tíma í rannsókn. Í mörgum tilfellum eru málin felld niður þar sem lögreglan finnur ekki næg gögn til að ákæra einstaklingana. Þrátt fyrir þetta eiga þeir sem hafa verið ásakaðir oft erfitt með að fá fyrra líf sitt aftur. Það skiptir ekki máli þó málin endi með sýknu eða niðurfellingu. Áhrifin á einstaklingana og fjölskyldur þeirra eru djúpstæð og langvarandi.

Aðilar sem eru sýnaðir af ásökunum ná ekki fyrra lífi sínu til baka

Í tilviki eins ungs manns sem Sævar nefnir var hann sakaður um kynferðisbrot utan vinnustaðarins. Málið fór til lögreglu en félagið sem hann starfaði fyrir ákvað að setja hann í leyfi og síðar var honum ekki leyft að koma aftur til vinnu. Lögreglan komst síðar að þeirri niðurstöðu að enginn grundvöllur væri fyrir ákæru en samt náði þessi maður aldrei fyrra lífi sínu til baka. Sævar bendir á að slík mál eru algeng og fólk er dæmt af samfélaginu áður en réttarkerfið hefur lokið vinnu sinni. Þetta veldur miklum mannlegum þjáningum sem er ómögulegt að bæta.

Stjórnendur fyrirtækja eiga ekki að setjast í dómarasætið í meintum kynferðisbrotum

Sævar leggur áherslu á að það sé mikilvægt að gæta meðalhófs í meðferð svona mála. Fyrirtæki ættu ekki að taka sér dómarasæti og fólk ætti að fá tækifæri til að verja sig áður en ákvarðanir eru teknar sem breyta lífi þeirra varanlega. Mikilvægt væri fyrir fyrirtæki að fá slík mál út úr fyrirtækunum hið fyrsta og þar til bærir aðilar rannökuðu málin eins og lögreglan gerir. Sævar telur að það sé skaðlegt fyrir samfélagið ef einstaklingar missa vinnuna og félagslega stöðu sína án þess að neinn hafi kannað hvort ásakanirnar eigi rétt á sér. Þá sé gríðarlega erfitt fyrir þá sem verða fyrir slíkum ásökunum að ná fyrra lífi sínu aftur ef það tekur marga mánuði eða ár að komast að niðurstöðu í málinu.

Andlegt ofbeldi er vanmetið þegar aðilar eru sakaðir um kynferðisbrot

Sævar telur að samfélagið verði að finna jafnvægi milli þess að vernda þolendur kynferðisbrota og þess að tryggja að sakborningar fái réttláta málsmeðferð. Hann bendir á að andlegt ofbeldi sem fylgir svona ásökunum sé oft vanmetið. Þeir sem verða fyrir ásökunum upplifa mikla vanlíðan og félagslega útskúfun jafnvel þó að þeir hafi verið sýknaðir af dómstólum. Dæmi eru um að slíkir aðilar hafa gripið til þess ráðs að taka eigið líf.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila