Ásdís Halla tekur við starfi ráðuneytisstjóra í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti tímabundið

Ásdís Halla Bragadóttir

Ásdís Halla Bragadóttir verður sett ráðuneytisstjóri háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis frá 1. febrúar. Setningin er tímabundin til þriggja mánaða á meðan auglýst er eftir ráðuneytisstjóra fyrir hið nýja ráðuneyti.

Það er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem setur í embættið. Ákvörðunin var tekin á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um heimild um setningu.

Ásdís Halla hefur fjölþætta reynslu úr bæði stjórnsýslu og atvinnulífi. Hún lauk meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Harvard háskóla og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún var m.a. bæjarstjóri í Garðabæ, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, sat í háskólaráði HR og Kennaraháskólans. Síðustu ár hefur hún komið að stofnun og rekstri fyrirtækja í heilbrigðis- og velferðarþjónustu ásamt því að sinna ritstörfum.

Í tilkynningu segir að með stofnun nýs ráðuneytis sé ætlunin að tengja betur háskóla, vísindi, iðnað og nýsköpun. Það endurspeglar áherslur ríkisstjórnarinnar á að takast á við áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar og nýta hraðfleygar tæknibreytingar og stafræna umbyltingu í þágu samfélagsins alls, líkt og segir í þingsályktunartillögu um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þar segir jafnframt að á 21. öldinni hafi orðið bylting í þekkingariðnaði þar sem vísindi og rannsóknir á háskólastigi hafa gegnt lykilhlutverki. Stjórnkerfi hvers ríkis þurfi að laga skipulag sitt að þeim veruleika.

Deila