Ásdís Rán: Ekki láta skoðanakannanir hafa áhrif á afstöðu ykkar

Það er mikilvægt að fólk hafi sjálfstæða skoðun þegar kemur að því að fólk velji sér frambjóðanda til þess að kjósa í forsetakosningunum og láti skoðanakannanir ekki hafa áhrif á afstöðu sína. Þetta segir Ásdís Rán Gunnarsdóttir fyrirsæta og forsetaframbjóðandi en hún var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Ásdís segir að hún hafi að undanförnu heyrt út undan sér þá umræðu að fólk sé að ræða að það verði einfaldlega að velja á milli þeirra fjögurra sem efstir verða í skoðanakönnunum. Það sé því mikilvægt að fólk átti sig á að niðurstöður skoðanakannana séu ekki endilega að spegla raunverulegt fylgi.

Auðvelt að stýra niðurstöðum skoðanakannana

Hún bendir á að auðvelt sé að stýra því hvernig niðurstöður skoðanakanna verða og því ætti fólk að taka niðurstöðum þeirra af mikilli varúð. Það séu alls kyns hagsmunaaðilar þar á bak við sem vilji hafa áhrif og gera það einmitt með þessum hætti og því ætti fólk að standa fast með sínu atkvæði þó það ætli að velja einhvern sem sagður er vera með lítið fylgi.

Fjórir frambjóðendur fyrst og fremst auglýstir

Ásdís segir að áhrif skoðanakannana gæti víða og tekur sem dæmi Hringferð Morgunblaðsins sem ákvað að fara hringferð með þeim frambjóðendum sem sagðir eru vera með mest fylgi samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana. Þarna sé í raun verið að taka þessa fjóra frambjóðendur og eyða milljónum í auglýsingaherferð til handa þeim á meðan hinir fái ekki að komast að. Ásdís segir þetta bæði asnalegt auk þess sem jafnræðis sé ekki gætt meðal frambjóðenda.

Aðspurð um af hverju hún haldi að þetta sé gert með þessum hætti segir Ásdís að þetta sé dæmi um hvernig fjölmiðill reyni að hafa áhrif á hvað fólk kjósi svo einfalt sé það.

Hlusta má á nánari umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila