Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2025, sem var kynnt í dag, leggur áherslu á að bæta afkomu ríkissjóðs með aðhaldi í opinberum útgjöldum og forgangsröðun. Markmið ríkisfjármálastefnunnar er að draga úr verðbólgu og skapa betri skilyrði fyrir lægri vexti. Áfram verður lögð áhersla á að verja fjárveitingar til heilbrigðis- og velferðarmála, í samræmi við stefnu stjórnvalda um að styðja við viðkvæma hópa, á sama tíma og atvinnulífið er styrkt. Aukin verðmætasköpun í atvinnulífinu er talin lykilþáttur í að viðhalda öflugu velferðarkerfi.
Gert ráð fyrir batnandi afkomu ríkissjóðs
Áætlað er að afkoma ríkissjóðs batni um 0,4% af vergri landsframleiðslu (VLF) á árinu 2025, miðað við uppfærða áætlun fyrir yfirstandandi ár. Gert er ráð fyrir að halli ríkissjóðs verði tæplega 41 milljarður króna, eða 0,8% af VLF, sem er minnkun frá rúmlega 57 milljarða króna halla á þessu ári. Þetta er töluverður bati frá árunum í kringum heimsfaraldurinn, þegar hallinn náði hámarki, eða rúmlega 8% af VLF. Frumjöfnuður ríkissjóðs, þ.e. afkoma án vaxtagjalda og tekna, er áætlaður jákvæður um rúmlega 36 milljarða króna, eða 0,7% af VLF, sem er bati upp á rúmlega 4 milljarða milli ára.
Skuldir ríkissjóðs, samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál, eru áætlaðar rúmlega 31% af VLF í lok árs 2025, sem er 0,7% lækkun milli ára. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir hóflegum raunvexti útgjalda, með áframhaldandi forgangsröðun og hagræðingu í þágu viðkvæmra hópa. Auk almennrar aðhaldskröfu og útgjaldalækkana hefur verið útfært hvernig 9 milljarða króna afkomubætandi ráðstafanir verða framkvæmdar, eins og gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun. Samtals munu þessar breytingar leiða til lækkunar útgjalda um 29 milljarða króna á næsta ári miðað við fyrri áætlanir, sem að hluta til verða nýttar til að forgangsraða nýjum og brýnum verkefnum.
Styðja við markmið kjarasamninga
Hækkaðir stýrivextir Seðlabankans hafa haft mest áhrif á skuldsetta heimili, sérstaklega á yngri aldurshópa þar sem vaxtabyrði hefur aukist hraðar en hjá öðrum. Í ljósi þessa hafa stjórnvöld sett aðgerðir sem styðja við markmið langtímakjarasamninga í forgang, með sérstaka áherslu á barnafjölskyldur, leigjendur og skuldsetta íbúðaeigendur. Meðal aðgerða var sérstakur vaxtastuðningur til heimila með íbúðalán, hækkun grunnfjárhæða og eignaskerðingarmarka í húsnæðisbótakerfinu, aukin stuðningur við barnafjölskyldur, og er áætlað að kostnaður vegna þessara aðgerða nemi um 14 milljörðum króna árið 2025. Ríkisstjórnin ákvað einnig að styðja við byggingu 1.000 íbúða á ári á samningstímanum með stofnframlögum og hlutdeildarlánum, og hefur fjármögnun þeirra verið tryggð.
Kílómetragjaldið
Breytingar á skattkerfinu árið 2025 taka mið af efnahagslegri þróun og áhrifum tæknibreytinga á tekjur ríkisins. Helsta breytingin felst í nýju kerfi gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti, þar sem tekjur af þessum flokkum hafa lækkað vegna orkuskipta og sparneytnari bifreiða. Í stað eldri gjalda, s.s. vörugjalda á bensín og olíugjalda á dísilolíu, verður tekið upp kílómetragjald fyrir bifreiðar, þar með talið rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbifreiðar. Þessi kerfisbreyting hefur það markmið að bæta tekjuöflun ríkisins og skapa sanngjarnara gjaldkerfi þar sem gjöldin miðast við notkun vegakerfisins og áhrif á vegslit. Eldri gjöld á bensín og olíu verða felld niður, og kolefnisgjald hækkað til að stuðla áfram að orkuskiptum. Aðrar krónutöluhækkanir verða 2,5%, í samræmi við yfirlýsingar stjórnvalda og verðbólgumarkmið, þó verðbólga sé áætluð 5,2% árið 2024.
Smella má hér til þess að skoða fjárlagafrumvarpið í heild