Bændauppreisn í Hollandi – „Við höfnum glóbalismanum!“

Tugþúsundir manna mótmæltu um helgina tilraunum loftslagssinna til að breyta Hollandi í þrælaríki glóbalismans. Áhorfendur fögnuðu þegar hin fræga Eva Vlaardingerbroek, lagaheimspekingur, hélt ræðu og sagði við mannfjöldann: „Við semjum ekki við fólk, sem pínir bændur okkar og rekur á dyr örvæntingar!“

Um helgina fóru fram fjölmenn mótmæli í Hollandi fyrir bændur landsins en hollensk ríkisstjórn glóbalista reynir allt sem hægt er til að eyðileggja landbúnaðinn í landinu og stela jörðum bænda. Er öllu saman stýrt með heimsendahótunum ef skipunum glóbalista verður ekki framfylgt. Borgarstjórinn í Haag hótaði með hollenska hernum og takmarkaði fjölda leyfilegra traktora í tvo í borginni til að reyna að stöðva mótmælin. Einn af ræðumönnunum var hollenski réttarfarsheimspekingurinn Eva Vlaardingerbroek, sem Útvarp Saga hefur áður skrifað og rætt um. Hún vandaði ekki „glóbalistunum“ kveðjurnar, sem að hennar sögn eru að reyna að eyðileggja landið hennar. Samkvæmt The Gateway Pundit tóku tugþúsundir þátt í mótmælunum.

„Landið okkar fæddist í andstöðu við harðstjórn, spænska harðstjórn. (Holland varð til í 80 ára sjálfstæðisstríði gegn Filippusi II Spánarkonungi og yfirráðum Spánverja, sem hófst með uppreisn árið 1568, athugasemd ÚS.) Núna, næstum fimm hundruð árum síðar, erum við enn og aftur að berjast gegn harðstjórn, gegn spilltu og óréttlátu stjórnarfari sem útilokar ólíkar skoðanir og rekur bændur okkar af jörðum sínum. Áður fyrr kom þetta óréttlæti frá Madrid. Núna kemur það héðan, frá Haag. Þetta er óréttlæti af verstu gerð. Ríkisstjórn okkar hefur hafið árás á sitt eigið fólk, gegn einum harðduglegasta, farsælasta og hvetjandi hóp landsins. Bændum okkar og meðborgurum Hollands!“

Hafa framleitt mat fyrir milljónir manna um allan heim

Vlaardingerbroek benti á, að hollenskir bændur hefðu gegnum aldirnar framleitt mat fyrir milljónir manns um allan heim:

„Og ólíkt því sem lygararnir í höfuðborginni halda fram, þá gera bændurnir það á sjálfbæran og ábyrgan hátt, með mikilli virðingu fyrir sköpun Guðs. En það er auðvitað ekki það sem ríkisstjórn okkar hefur áhyggjur af. Ríkisstjórn okkar er sama um náttúruna, Hollendinga eða bændur. Þeir hafa einfaldlega búið til lygi til að stela landi bændanna. Allt sem þið bændur eigið, allt sem þið hafið unnið svo mikið fyrir alla ævi, halda þeir að þeir geti bara tekið frá ykkur. Viljið þið vita, hvað ég kalla þessa tegund af fólki? Einfalda þjófa! Ég get sagt ykkur öllum hér, að við semjum ekki við þjófa. Við semjum ekki við fólk, sem pínir bændur okkar og rekur á dyr örvæntingar. Við semjum ekki við fólk sem er í stríði gegn bændum okkar.“

Glóbalistaelíta ESB að tjaldabaki

Samkvæmt réttarheimspekingnum á þetta ekki bara við um ríkisstjórnina heldur líka „stjórnarandstöðuna“ sem tók ekki þátt í mótmælunum. Allir stjórnmálamenn fylgja stefnuskrá glóbalistanna og í bakgrunninum er elítan í ESB, benti Vlaardingerbroek á:

„Þeir ættu að skammast sín! Því kæra fólk, ef nú er ekki rétti tíminn til að berjast, hvenær er það þá? Hvað verður eftir fyrir okkur? Ekkert! Og þess vegna komum við saman hér í dag. Sjáið hvað þið eruð mörg, þvert á allar líkur! Það er ótrúlegt að sjá!“

Við höfnum glóbalismanum – lifi bændur okkar!

„Eyðilegging þjóðar okkar og lýðræðis verður að stöðva. Hollenskir ​​bændur, þið eruð þeir einu sem hafið nægjanlegt hugrekki og styrk til að berjast gegn þessari hræðilegu stjórn okkar. Þið eruð síðasta von okkar. Síðasta vonin fyrir fallega landið okkar. Einmitt þess vegna vilja þeir losa sig við ykkur. Við munum berjast gegn þeim. Þeir munu berjast gegn okkur. Ekkert mun stöðva þá. Þeir munu elta okkur alls staðar. Og auðvitað munu þjónar þeirra í almennum fjölmiðlum gera allt sem þeir geta til að djöflast á bændum okkar og öðrum inn að beini. En við vitum betur. Þess vegna stöndum við þétt með bændum okkar. Vegna þess að við vitum, að eftir bændurna kemur röðin að okkur. Þess vegna munum við ekki láta það gerast. Við höfnum glóbalismanum, höfnum þeim sem selja upp landið okkar og við höfnum þessari stjórn! Lengi lifi hollensku bændur, lengi lifi Holland, lengi lifi frelsi okkar!“

Deila