Bátur sökk í Hafnarfjarðarhöfn

Eins og sjá má á þessari mynd er báturinn á bólakafi og ekkert stendur uppúr nema strompurinn

Bátur sökk við smábátabryggjuna í Hafnarfjarðarhöfn í nótt og var á bólakafi þegar starfsmenn hafnarinnar mættu til vinnu í morgun. Ekki er vitað hvað varð til þess að báturinn sökk en málið verður rannsakað nánar þegar báturinn hefur náðst á þurrt land.

Aðgerðir til þess að ná bátnum upp eru ekki hafnar enn sem komið er og ekki hefur verið ákveðið hvenær þær hefjast. Litlu mátti muna að annar bátur sem bundinn var við þann sem sökk sykki líka en það tókst að koma í veg fyrir það og þar með frekara tjón.

Ekki er talin hætta á teljandi mengun vegna atviksins.

Deila