Það er mikið áhyggjuefni hvernig málum hefur verið fyrir komið í vindmylluvæðingunni og áætlanir um vindmyllugarða virðist fara fram án nægilegrar umræðu og samráðs. Þróunin í Vindmylluvæðingunni lítur út eins og Villta vestrið. Þetta segir Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu sem heyra má í spilaranum hér að neðan.
Bergþór vísaði til þess að hann hafi áður stutt það að sum verkefni, eins og vindmyllugarðurinn í Búrfellssvæðinu, kæmust inn í rammaáætlun. Hins vegar sé hann nú farinn að hafa miklar áhyggjur af því að fleiri og umfangsmeiri vindmyllugarðar séu á leiðinni. Hann benti á að margir þessara garða muni hafa veruleg sjónræn áhrif á nærsvæði sín og gætu haft neikvæð áhrif á landslag og náttúru Íslands.
Mikilvægt að tryggja sanngjarna tekjuskiptingu á Búrfellssvæðinu
Þá tók Bergþór fram að hann telji að mikið vanti upp á ítarlega skoðun á hagsmunum og áhrifum vindmylla, bæði þegar kemur að staðsetningu og línulögnum sem fylgja þeim. Hann gagnrýndi einnig það að þeir sem búa á svæðum þar sem vindmyllur eru settar upp njóti ekki nægilega mikils efnahagslegs ávinnings af framkvæmdunum, þrátt fyrir að bera byrðarnar af þeim. Að hans mati þurfi að tryggja sanngjarna tekjuskiptingu, þar sem þeir sem verða fyrir umhverfisáhrifum njóti réttláts hluta af tekjunum sem vindmyllurnar skapa.
Á að leggja áherslu á vatnsafl og jarðvarma
Bergþór kallar eftir varfærni í uppbyggingu vindorku á Íslandi. Hann lagði til að Ísland ætti að flýta sér hægt í þessum málum og í staðinn leggja áherslu á að nýta aðra orkukosti, eins og vatnsafl og jarðvarma, sem hafa reynst vel og eru betur þekktir innan orkuvinnslu landsins.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan