Bjarkey gefur út leyfi til hvalveiða

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur ákveðið að veita Hval hf leyfi til hvalveiða í sumar. Þessi ákvörðun Bjarkeyjar var kynnt á ríkisstjórnarfundi nú í morgun. Bjarkey segist ákvörðunina ekki samrýmast hennar skoðunum en framhjá því verði ekki horft að fara verði að lögum í málinu.

Nokkur óvissa hefur ríkt um ákvörðun Bjarkeyjar þar sem hún hafi tekið sér mjög langan tíma til þess að kalla eftir gögnum um málið og fara yfir þau. Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að þó leyfið kæmi nú væri það alltof seint fram komið því það tæki tíma að undirbúa veiðarnar, ráða starfsfólk og fara yfir búnað.

Þá hefur komið fram talsverð gagnrýni á að hvalveiðar séu í raun eina atvinnugreinin sem þurfi að sækja um leyfi fyrir hverja vertíð og erfitt sé að reka fyrirtæki með ekki meiri fyrirsjáanleika en raunin sé.

Samkvæmt leyfinu sem nú hefur verið gefið út verður hval heimilt að veiða 128 stórhvali.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila