Það verður að vera hægt að tala um staðreyndir og reynslu annara í útlendingamálum án þess að fólk sé stimplað rasistar og verði úthrópað. Þeir sem mótmæla með gífuryrðum um fólk verður ekki marktækt og fá engu ágengt með slíku háttarlagi. Það blasir við mér er að kerfið er sprungið. Þetta segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur.
Bjarni segir að stimplun um einhverja útlendingaandúð og þess háttar séu þöggunartilburðir sem hann ætli ekki að láta stoppa sig í að tala um staðreyndir í málaflokknum. Það verði einfaldlega að vera hægt að tala um þessi mál hvort sem það er um tölur í þessum málum, kostnað, reynslu annara ríkja eða hvaða áhrif stefnan í hælisleitendamálum hefur á stjórnkerfið og innviði landsins.
Blasir við að kerfið er sprungið
Bjarni segir að það sem blasi við honum sé kerfi sem sé sprungið en það sé hægt að laga það með því að stoppa í götin og senda út þau skilaboð að hér verði breytingar. Hann segir að setja þurfi meira fjármagn til málaflokksins á breiðari grundvelli. Bjarni segir að það sem hann eigi við í því sambandi sé að hjálpa fólki sem hingað kemur og vill búa og starfa að aðlagast samfélaginu og efla íslenskukennslu sem sé lykilatriði til þess að geta tekið þátt í samfélaginu.
Leggst ekki gegn rétti fólks til að mótmæla
Hvað varðar gífuryrði í garð Bjarna af hálfu þeirra Palestínumanna og íslenskra aðgerðarsinna sem mótmælt hafa á Austurvelli til þess að þrýsta á um fjölskyldusameiningu segir Bjarni að hann myndi aldrei leggjast gegn rétti þeirra til að mótmæla. Það sé hins vegar svo að þeir sem fari fram með gífuryrðum séu ómarktækir og senda þurfi skýr skilaboð að samtalið verði ekki tekið á slíkum grundvelli. Þeir sem láta svona þurfi líka að finna það að þeim verði ekkert ágengt með slíkri framkomu.
„við ætlum að finna lausnir á grundvelli samtals sem byggir á gögnum og heilbrigðri framtíðarsýn á þróun samfélagsins“segir Bjarni.
Hlusta má á þáttinn og nánari umfjöllun um fjölskyldusameiningu í spilaranum hér að neðan