Bjóða upp á nám í heyrnartækni í fyrsta sinn hér á landi

Boðið verður upp á tækifæri til náms í heyrnartækni í fyrsta sinn hér á landi næsta haust, í samvinnu Heilbrigðisskóla Fjölbrautarskólans við Ármúla og SydDansk Erhvervsskole í Óðinsvéum. Mikil og vaxandi þörf er fyrir heyrnarfræðinga og sérhæft starfsfólk í heyrnartækni. Heilbrigðisráðuneytið fól því Landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu að skoða leiðir til að skapa námstækifæri á þessu sviði.

Heilbrigðisráðuneytið mun veita tveimur til fjórum nemendum styrki til náms í heyrnartækni þegar það hefst næsta haust. Nám í heyrnartækni var kynnt á íslandsmóti iðn- og verkgreina í Laugardalshöllinni dagana 16.-18. mars sl. þar sem grunnskólanemar gátu jafnframt kynnt sér fjölbreytt námstækifæri.

Skortur er á heyrnarfræðingum hér á landi og fyrirsjáanlegt er að þörf fyrir þjónustu sem tengist heyrn og heyrnarskerðingu aukist á komandi árum eftir því sem þjóðin eldist, samhliða aukinna möguleika á meðferð við heyrnarskerðingu.

Heyrnarfræðingar vinna að flóknum verkefnum sem tengjast m.a. kuðungsígræðslum og meðferð heyrnarmeina, auk annarra mikilvægra starfa sem krefjast ekki eins mikillar sérhæfingar og falla vel að menntun og þjálfun heyrnartækna. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila