Bleika slaufan – Mikilvægt árvekni og fjáröflunarátak

Það þekkir orðið hvert mannsbarn á Íslandi Bleiku slaufuna sem er árvekni og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands. Félagið vinnur á fjölbreyttan hátt að því að fækka þeim sem fá krabbamein, fjölga þeim sem lifa og bæta lífsgæði þeirra sem greinast og aðstandenda þeirra.

Með Bleiku slaufunni er ætlunin að vekja sérstaka athygli á krabbameini kvenna en dánartíðni kvenna af völdum krabbameina hefur lækkað um 35% á síðustu 50 árum og lífslíkur kvenna sem fá krabbamein einhverntíma á ævinni hafa nær tvöfaldast.

Hjarta Bleiku slaufunnar í ár er slagorðið Verum bleik – fyrir okkur öll. Steinarnir í slaufunni sjálfri, sem eru bæði margir og ólíkir, tákna margbreytileika okkar og þéttan stuðning samfélagsins. Krabbamein kvenna snertir okkur öll einhvern tímann á lífsleiðinni og við getum öll lagt okkar af mörkum í baráttunni.

Að vera bleik þýðir að taka þátt í átakinu, sýna samstöðu (bókstaflega) með málstaðnum og kaupa Bleiku slaufuna. Sýnileg samstaða getur flutt fjöll og breytt öllu fyrir þau sem glíma við krabbamein og aðstandendur þeirra.

Með kaupum á Bleiku slaufunni eða öðrum stuðningi við átakið gerir þú félaginu kleift að:

  • styðja fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra með ókeypis ráðgjöf hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa.
  • styrkja íslenskar krabbameinsrannsóknir sem snúa meðal annars að orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.
  • sinna ýmiss konar fræðslu, forvarnarstarfi, námskeiðshaldi og fleiru sem miðar að því að draga úr líkum á krabbameinum og bæta líf fólks með krabbamein.
  • sinna hagsmunagæslu og beita sér fyrir bættri aðstöðu fyrir fólk með krabbamein.

Einn af hverjum þremur Íslendingum má búast við að greinast með krabbamein á lífsleiðinni. Sem betur fer tekst sífellt betur að greina krabbamein tímanlega, ráða niðurlögum þeirra og halda sjúkdómunum í skefjum og nú er svo komið að næstum 70% þeirra sem greinast með krabbamein eru á lífi fimm árum síðar. 

Í dag eru hátt í 17.000 þúsund einstaklingar á lífi sem greinst hafa með krabbamein og þeim fer hratt fjölgandi. Þessi jákvæða þróun hefur í þó för með sér ört vaxandi þörf fyrir þjónustu og stuðning við þá sem hafa greinst og aðstandendur þeirra, bæði meðan á veikindum stendur og þegar þau eru yfirstaðin.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila