„Börn eru ekki litlir fullorðnir“ – Skýrsla starfshóps um heilbrigðisþjónustu við börn sem þolendur ofbeldis birt

Mynd/Golli/Heilbrigðisráðuneytið

Starfshópur sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fól að móta framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu fyrir börn sem eru þolendur ofbeldis hefur nú lokið störfum og skilað ráðherra skýrslu ásamt tillögum. Til afmörkunar efnisins voru skoðaðar tvær birtingarmyndir ofbeldis í garð barna. Annars vegar börn sem þolendur heimilisofbeldis og hins vegar sá hópur barna sem útsettur er fyrir að undirgangast limlestingar á kynfærum.

Framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu fyrir börn sem eru þolendur ofbeldis er mikilvæg af mörgum ástæðum. Heilsufarslegar afleiðingar ofbeldis geta verið umfangsmiklar, alvarlegar og hugsanlega lífshættulegar. Viðbragð og verklag heilbrigðiskerfisins þarf að vera staðlað, heilbrigðisstarfsfólk þarf að þekkja viðbragðið og birtingarmyndir ofbeldis í garð barna og heimildir miðlunar upplýsinga milli kerfa þurfa að vera skýrar til að tryggja að börn fái viðunandi aðstoð. Mikilvægt er að börnum og unglingum sem verða fyrir ofbeldi sé tryggð jöfn þjónusta og meðferð sem er sniðin að þörfum þeirra. Skýra og samræma mætti verklag á heilbrigðisstofnunum og auka fræðslu til heilbrigðisstarfsfólks. Kanna þarf fýsileika á skimun fyrir ofbeldi og heimild fyrir miðlun upplýsinga milli kerfa þarf að vera skýr.

Eftirfarandi eru megintillögur hópsins en nánar er fjallað um þær í skýrslunni auk þess sem þar má finna lýsingu á núverandi stöðu mála. Tillögur hópsins miðast við heilbrigðisþjónustu við börn af öllum kynjum, með áherslu á að hópurinn er fjölbreyttur og að taka skuli mið af því. Jafnframt er gert ráð fyrir að við vinnuna skuli taka sérstakt tillit til fatlaðra barna.

  1. Kanna fýsileika þess að koma á skimun fyrir ofbeldi í garð barna í grunnskólum landsins og styrkja í framhaldinu heilbrigðisþjónustu við börn sem eru þolendur ofbeldis.
  2. Hanna verklag í nálgun að skimun fyrir limlestingu á kynfærum barna í meðgönguvernd og ung-og smábarnavernd sem og að hanna verklag að meðferð fyrir heilbrigðisstofnanir landsins.
  3. Að uppfæra og samræma verklag á öllum heilbrigðisstofnunum landsins í heilbrigðisþjónustu við börn sem eru þolendur ofbeldis.
  4. Útbúa fræðsluefni fyrir heilbrigðisstarfsfólk um rétt viðbrögð í málaflokknum börn sem þolendur ofbeldis.
  5. Að loka hringnum – skýra samskipti barnaverndar, heilbrigðiskerfis og lögreglu um afdrif mála hjá barnavernd.

Starfshópurinn var skipaður breiðum hópi sérfræðinga frá Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, mennta- og barnamálaráðuneyti, Barna- og fjölskyldustofu, Barnavernd Reykjavíkur, ÖBÍ-réttindasamtökum og ríkislögreglustjóra. Auk sérfræðinganna í hópnum var leitað ráðgjafar og aðstoðar frá öðrum sem þekkja til þessara mála og er það rakið í skýrslu hópsins.

Börn eru ekki litlir fullorðnir – skýrsla starfshóps

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila