Með breytingum á grunnskólalögum verða gerðar ýmsar nýjar breytingar sem eiga að stuðla að því að bæta yfirsýn yfir námsárangur barna og gera grunnskólakerfið skilvirkara. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ásmundar Einars Daðasonar menningar-og barnamálaráðherra í Síðdegisútvarpinu í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur og hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
OECD er með PISA niðurstöðurnar
Ásmundur Einar segir að meðal annars eigi að taka upp sérstakan matsferil sem feli í sér valkvæð lesfimipróf og síðan skyldubundin lesskilningspróf. Ásmundur Einar segir að með þessu sé verið að veita skólunum verkfæri til þess að geta glöggvað sig betur á hvar þeir standi þegar kemur að námsárangri nemenda. Hvað PISA prófin varðar segir Ásmundur Einar það rangt að hann vilji ekki afhenda niðurstöður PISA heldur sé sannleikurinn sá að hann sé ekki með þessar upplýsingar. PISA sem ekki séu samræmd próf séu fyrst og fremst verkfæri fyrir OECD til þess að meta stöðuna í skólakerfinu á landsvísu og það sé OECD sem hafi yfir þessum upplýsingum að ráða.
Sérstakur gagnagrunnur um nemendur
Einnig sé í undirbúningi sérstakur gagnagrunnur um nemendur þar sem allar upplýsingar um nemendur eru skráðar. Ásmundur Einar segir að sá gagnagrunnur komið meðal annars að gagni þegar nemendur flytjist milli sveitarfélaga. Hann segir að gögn verði aðeins skráð í þennan gagnagrunn að fengnu samþykki foreldra.
Mörg tungumál í sama bekknum eiga ekki að tefja námsframvindu
Þá segir Ásmundur Einar að eitt af þeim frumvörpum sem til standi að leggja fram sé að námsgögn verði gjaldfrjáls fyrir 18 ára og yngri í framhaldsskólum. Hann segir þetta mikilvægt því það eigi auðvitað að vera þannig að nemendur í íslensku skólakerfi eigi að vera jafnir alveg óháð félagslegri stöðu. Það verði gert með inngildingu sem eigi að tryggja að allir hafi jafnan rétt til að læra. Aðspurður hvort það tefji ekki námsframvindu með því að hafa jafnvel 20 tungumál í bekkjum segir Ásmundur Einar að það sé verið að vinna að lausnum á því. Hann segist algjörlega ósammála sínum samráðherrum og þingmönnum í Sjálfstæðisflokknum að að þetta sé bruðl að gefa máltíðir í skólum. Því þetta séu grundvallarmannréttindi barna og að tölfræðin sýni að félagslegur bakgrunnur barna sé að hafa meiri áhrif á námsárangur barna en hann gerði áður.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun um breytingar á grunnskólalögum í spilaranum hér að neðan.