Dæmi um að Samkeppniseftirlitið þurfi að loka málum án niðurstöðu vegna fjárskorts

Samkeppniseftirlitið hefur undanfarið þurft að grípa til tiltektar í stjórnsýslumálum og aðgerða til að laga starfsemi sína að fjárheimildum eftirlitsins sem hafa undanfarin ár ekki haldist í hendur við aukin umsvif í efnahagslífinu. Hluti af þeim aðgerðum hefur falist í lokun mála án endanlegrar niðurstöðu.

Í því felst að aðilar mála fá tilkynningu um lok þeirra þar sem þau eru felld niður án þess að rannsókn sé lokið að fullu og án afstöðu til mögulegrar íhlutunar. Með þessu og annarri forgangsröðun hefur Samkeppniseftirlitið fækkað verulega málum og fyrirhugað er að loka fleiri málum með þessum hætti á komandi mánuðum.

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu vegna málsins segir að í þessum aðgerðum felist ekki að eftirlitið taki ekki nýjar athuganir upp eða haldi ekki áfram meðferð mála sem ólokið er. Aðgerðirnar feli það hins vegar í sér að verið er að sníða stakk eftirlitsins að þeim fjárframlögum sem það nýtur, en eftirlitið hefur gert ráðuneyti samkeppnismála og Alþingi grein fyrir því að rekstrarsvigrúm stofnunarinnar sé ófullnægjandi.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila