Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti nokkrum fjölda verkefna í dag að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar. Þau voru fjölbreytt að vanda og mis alvarleg.
Í miðborginni barst tilkynning um einstakling sem var að sprauta sig í sameign fjölbýlishúss. Þar að auki þurfti lögregla að hafa afskipti af ógnandi manni í nágrenni verslunar, sem var fjarlægður af vettvangi.
Í öðru hverfi borgarinnar hafði lögregla afskipti af ökumanni og farþega sem voru grunaðir um að hafa fíkniefni í fórum sínum. Þeir reyndu að flýja af vettvangi, en voru handteknir skömmu síðar.
Í úthverfi höfuðborgarinnar kviknaði eldur í bifreið, sem kallaði á viðbrögð slökkviliðs og lögreglu. Einnig var kona handtekin eftir að hafa valdið usla í verslun og var hún færð í fangaklefa.
Þá varð umferðarslys þegar ekið var á gangandi vegfaranda, en ekki hafa borist upplýsingar um ástand viðkomandi. Tilkynnt var um grunsamlegar mannaferðir í sama hverfi, auk þess sem par í annarlegu ástandi vakti athygli lögreglu.
Einnig þurfti lögregla að hafa afskipti af einstaklingi sem var haldinn ranghugmyndum og var honum komið í viðeigandi úrræði.