Davíðsson sendir frá sér sitt fyrsta lag, “On Thin Air”

Tónlistarmaðurinn Þorleifur Gaukur Davíðsson hefur komið fram með mörgum af helstu listamönnum landsins, s.s. Laufey, Kaleo, Bríet, KK, Mugison o.fl., en stígur nú í fyrsta sinn fram með tónlist undir eigin nafni – réttara sagt listamannsnafninu Davíðsson. Í dag kemur út lagið „On Thin Air“, það fyrsta af væntanlegri plötu hans Lifelines sem kemur út á vegum OPIA Community í ágúst.

Gaukur, eins og hann er oftast kallaður, hefur farið sínar eigin leiðir á sínum tónlistarferli og orðið þekktur fyrir að spila á heldur óhefðbundin hljóðfæri, munnhörpu og „pedal steel“ gítar. Fyrir næstum 10 árum síðan hlaut Gaukur inngöngu í hinn virta tónlistarskóla Berklee College of Music á fullum skólastyrk, fyrstur munnhörpuleikara, og hefur síðan þá haldið áfram að þróa sína einstöku listrænu rödd. Milli þess sem að hann þeytist um heiminn á tónleikaferðlögum með Kaleo er Gaukur þessa dagana búsettur í Nashville.

Samið í kjölfar föðurmissis

Lifelines er samin í kjölfar föðurmissis og listamannsnafnið valið til heiðurs föður Gauks. Tónlistina samdi Gaukur á mismunandi tímapunktum í sorgarferlinu og er eins konar heimild um vegferð hans í gegnum sorgina. Platan er einstakur, sammannlegur minnisvarði um hvernig tónlist getur verið til sjálfskoðunnar og á endanum verið heilandi.

Á plötunni koma auk Gauks fram sannkallaðar kempur í íslensku tónlistarlífi, þeir Skúli Sverrisson og Davíð Þór Jónsson. Tónlistin er marglaga og spannar víðan völl; gæta má áhrifa Ennio Morricone, aðdáendur Hermanos Gutierrez verða ekki sviknir og sumir hafa líkt tónlistinni við hálfgerða kúreka-hugleiðslu. Kvikmyndin Stages er einskonar systur verkefni Lifelines en hún hlaut verðlaun sem besta stuttmyndin á RIFF-hátíðinni 2023.

Bókstaflega á ystu nöf

Lagið sem kom út í dag, „On Thin Air“, segir Gaukur vera innblásið af tilfinningunni að vera, bókstaflega, á ystu nöf: „Ég var að velta fyrir mér tilfinningunni sem fylgir því að klífa hæstu tinda heimsins, þar sem fjallstoppar og ský renna saman. Ég get ímyndað að mér að þessu fylgi fullkomið frelsi en á sama tíma er maður með lífið að veði. Ég hef horft á fjölda heimildamynda um þessa hættulegu leiðangra og byrjaði svo að dreyma um þessa tilfinningu.“

Hér að neðan má sjá lifandi flutning Gauks á „On Thin Air“ sem tekinn var upp á Bláfelli í síðustu viku.

Tilkynnt var um samstarf Davíðsson og OPIA á nýafstaðinni, uppseldri OPIA-hátíð í Utrecht sunnudaginn 2. júní, en þar opnaði Davíðsson hátíðina eftir ávarp og kynningu frá Ólafi Arnalds.

Einstakur listamaður

OPIA Community var stofnað um mitt ár 2023 af tónlistarmanninum Ólafi Arnalds og stendur fyrir útgáfu, tónlistarhátíðum víða um heim auk þess að halda utan um samfélag listamanna og listunnenda. Davíðsson er annar listamaðurinn sem skrifar undir útgáfusamning við OPIA. „Það er sannur heiður að Gaukur hafi treyst okkur fyrir fyrstu plötu Davíðsson verkefnisins. Hann er einstakur listamaður með hjartað á réttum stað. Lifelines er í senn gullfalleg og nístandi sár frumraun. Við erum í skýjunum að fá að vera hluti af hans ferðalagi,“ segir Ólafur.

„On Thin Air“ má hlusta á hér: https://davidsson.lnk.to/onthinair

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila