Dregið hefur verulega úr virkni gossins

Frá því síðdegis í gær hefur dregið verulega úr virkni á gossprungunni við Sundhnúksgígaröðin. Virknin í gosinu hefur verið á svipuðum nótum í nótt og í morgun en gosórói hefur verið stöðugur síðan seint í gærkvöldi. Engin sprengivirkni hefur sést síðan í síðdegis í gær, en gufusprengingar urðu þar sem hraun flæddi ofan í sprungur og komst í snertingu við grunnvatn við Hagafell.

Virknin nú er mest nærri þeim gíg sem var lengst virkastur í eldgosinu sem hófst 16. mars og virkni á nokkrum hlutum gossprungunnar norðan hans. Hraunrennsli er nú mest á svæðinu í kringum Hagafelli. Hægt hefur á framrás hraunrennslis við Grindavíkurveg til móts við Svartsengi og við varnargarðana vestur af Grindavík.

Sérfræðingar úr myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands fóru í mælingaflug yfir gosstöðvarnar. Aðstæður til loftmyndatöku voru krefjandi þar sem gosmökkurinn lá yfir hluta hraunbreiðunnar sem myndaðist í upphafi gossins. Verið er að vinna frekar úr þeim gögnum sem náðust í loftmyndafluginu ásamt því að nota gervitunglamyndir til þess að fá skýrari mynd á hraunflæði fyrstu klukkustundir gossins.

Hægt er að fylgjast með beinu myndstreymi með því að smella hér.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila