Efling vísar kjaradeilu við Reykjavíkurborg til ríkissáttasemjara

Samninganefnd Eflingar – stéttarfélags hefur vísað kjaradeilu félagsins við Reykjavíkurborg til ríkissáttasemjara. Þetta kemur fram í tilkynningur frá Eflingu.

Fram kemur í tilkynningunni að formaður Eflingar hafi sent ríkissáttasemjara skriflega tilkynningu þess efnis. Efling lítur svo á að viðræður við Reykjavíkurborg hafi reynst árangurslausar en þær hafa staðið yfir síðan um miðjan apríl. Kjarasamningur Eflingar stéttarfélags og Reykjavíkurborgar rann út 1. apríl síðastliðinn.  

„Samninganefnd Eflingar sem er skipuð öflugu fólki með langa starfsreynslu hjá borginni var einróma um að vísa viðræðum til ríkissáttasemjara. Við höfum átt fjölmarga fundi með samninganefnd Reykjavíkurborgar en viðræður mjakast lítið sem ekkert áfram. Það er afskaplega undarlegt að upplifa að þrátt fyrir að við höfum komið því skýrt áleiðis, m.a. í kröfugerðinni okkar, að við ætlum að fylgja launastefnunni sem að mótuð var í kjarasamningum á almenna markaðnum, er borgin áhugalítil um að ræða bráðnauðsynleg umbótamál fyrir ómissandi starfsfólk sitt. Hófstilltar launahækkanir virðast ekki hafa vakið löngun til að ganga hratt og örugglega frá samningum við okkur. Við vonum að með því að vísa deilunni fari viðræður að skila árangri.“ segir í tilkynningunni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila