Einhliða áróðursstríð gegn hvalveiðum

Það kann ekki góðri lukku að stýra ef menn ætla að láta endalaust stilla sér upp við vegg af þrýstihópum sem vilja koma í veg fyrir að nytjastofnar séu nýttir hér á landi í samráði við Hafrannsóknarstofnun. Áróðursstríð sem þetta er algjörlega einhliða. Þetta segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness en hann var viðmælandi í þætti Péturs Gunnlaugssonar.

Vilhjálmur segir hreint með ólíkindum hvernig áróðurssstríðið gegn hvalveiðum hafi verið háð einhliða. Það sé erfitt að verjast slíku en aðalatriðið sé að hvalir séu hluti af þeim nytjastofni sem verði að nýta því annars sé hætta á að ójafnvægi verði í hafinu kringum landið.

Evrópusambandið á móti hvalveiðum

Þá segir Vilhjálmur að þeir sem vilji ganga í Evrópusambandið ættu að gera sér grein fyrir því að yfirlýst stefna Evrópusambandsins sé að hvalveiðar séu ekki stundaðar og ef svo færi að Ísland gengi í Evrópusambandið væri ljóst að dagar hvalveiða á Íslandi væru taldir. Því mætti segja að mati Vilhjálms að þeir sem vilji ganga í Evrópusambandið séu á móti hvalveiðum.

Útflutningsverðmæti hvalaafurða talsvert

Hann segir mikilvægt að menn átti sig á að Íslendingar þurfi að nýta sína nytjastofna og að samkvæmt tölum hagstofunnar hafi útflutningsverðmæti hvalaafurða numið þremur milljörðum króna og því sé það talsvert mikið hagsmunamál að það verði hægt að stunda hér hvalveiðar.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila