Það vantar ekki að kynntar séu heilmiklar og flottar kynningar á fyrirhugaðri uppbyggingu en það eru litlar líkur á því að nokkurn tíma verði nokkuð úr þeim áformum. Þetta segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fyrrverandi borgarstjóri en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar.
Vilhjálmur segir borgarbúa þegar hafa reynsluna af vinstri meirihlutanum sem verið hefur í borginni í fjölda ára og á þeim tíma hafi þessi meirihluti verið að gera nánast ekki neitt. Vilhjálmur setji því mikinn fyrirvara við þær yfirlýsingar borgaryfirvalda um einhverja stórkostlega uppbyggingu á 500 íbúðum hér og þar í borginni.
Einstaklingar fá ekki lóðir
Hann segir að sem dæmi megi nefna að borgina hafi ekki úthlutað neinum lóðum til þeirra einstaklinga sem vilja byggja svo heiti geti. Fyrst og fremst sé um að ræða verktaka sem kaupi lóðir dýrum dómum og byggi svo íbúðir sem fáir ef nokkrir hafa efni á að kaupa.
Ætlunin að byggja á mýrarsvæði í Grafarvogi
Varðandi fyrirhugaða uppbyggingu í Grafarvogi, Öskjuhlíð og Veðurstofureit segir Vilhjálmur að menn geti nokkurn veginn treyst því að það verði ekkert úr þeim áformum heldur frekar en öðrum áformum sem meirihlutinn hefur kynnt. Hann segir að þær tillögur sem lagðar hafa verið fram séu mjög óraunhæfar. Það væri hægt að hugsa sér að hægt yrði að stækka byggðina í Grafarvogi með einhverjum hætti. Hann segir að þegar hann hafi verið í borgarstjórn á sínum tíma og menn hafi verið að skipuleggja byggð í Grafarvogi hafi ekki hvarflað að þeim að setja niður byggð í þá reiti sem nú sé kynnt að eigi að byggja þar sem um mýrarsvæði sé að ræða.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun um húsnæðismálin í borginni í spilaranum hér að neðan