Ekki á það bætandi að þurfa að keppa við UBER ofan á þá svörtu starfsemi sem viðgengst í leigubílaakstri

Það er ekki á vanda leigubílstjóra bætandi að þurfa að fara að keppa við UBER ofan í þá svörtu starfsemi sem yfirvöld hafa látið viðgangast þegar kemur að leigubílaakstri hér á landi. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Daníels Einarssonar formanns Frama í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar.

Daníel segir að undanfarin ár hafi leigubílstjórar á Íslandi orðið af miklu af sínum tekjum vegna þess að svokallaðir skutlarar hafa sölsað undir sig stóran hluta af þeim markaði sem leigubílstjórar hafi sinnt hingað til en skutlarar eru aðilar sem auglýsa sína leigubílaþjónustu á netinu en hafi ekki leyfi til leigubílaaksturs og því um svarta atvinnustarfsemi að ræða. Fyrirhugaðar breytingar á lögum um leigubílaakstur séu ekki til þess fallnar að auðvelda leigubílstjórum störf sín því þar sé til dæmis gert ráð fyrir því að leigubílar þurfi ekki að vera undir skráðri leigubílastöð og því opnar það möguleikann á að UBER geti hafið hér starfsemi.

Daníel segir það kerfi sem hafi verið hér við líði hafi virkað vel hingað til og sé öruggt en það virki ekki ef það á að fara að grafa undan því. Margir leigubílstjórar eru afar ósáttir við þessar fyrirhugðu breytingar og telja margir að ef málið fái framgang muni það ganga af því kerfi sem verið hefur hér dauðu. Hann segir að með þessu sé til dæmis verið að afmennska stétt leigubílsstjóra.

„þetta verður eins og einhvers konar uppboðsviðskipti þar sem þetta getur bara verið í einhverju appi og afmennskar stéttina eins og þetta frumvarp er, svo strokar þetta frumvarp alveg út tilvist stéttarfélagsins“segir Daníel.

Málið snúi líka að öryggi farþega því þeir leigubílstjórar sem starfi löglega í dag séu undir merkjum sinna stöðva en séu ekki bara einhverjir Jónar úti í bæ sem enginn viti deili á.

Þá bendir Daníel á að með tilkomu UBER aukist hætta á að menn skjóti undan skatti, það hafi reynslan í nokkrum löndum sýnt nú þegar og það sé nú til dæmis ástæða þess að UBER sé ekki leyft í Danmörku.

Deila